Innlent

Segir samkeppni ekki virka og olíufélögin gefa villandi svör

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda. Mynd/ Vilhelm

Talsmaður neytenda segir að tölur um álagningu á bensíni sýni að samkeppnin á markaðnum sé ekki að virka. Álagning á bensínlítrann er umtalsvert hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Til dæmis er álagningin tvöfalt hærri hér en í Svíþjóð.

Fréttablaðið greinir frá því í dag og að meðalálagning á bensínlítrann á sjálfsafgreiðslustöðvum hafi verið tvöfalt hærri hér á landi en í Svíþjóð á síðasta ári. Blaðið vitnar í tölur frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda en samkvæmt þeim var meðalálagning á hvern seldan bensínlitra þrjátíu og ein króna á síðasta ári. Í Svíþjóð var sambærileg upphæð fjórtán krónur. Í Danmörku var álagningin tuttugu krónur og tuttugu og átta krónur í Noregi.

„Ég held að þarna sýni sig skortur á samkeppni bæði í bensínsölu og flutningageiranum," segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda. Gísli segir að íslenskir neytendur eigi að búa við samkeppnisumhverfi, en það sé ekki að virka.

Fréttablaðið hefur eftir Hermanni Guðmundssyni, forstjóra N1, í blaðinu í dag að olíufélögin gefi öll afslætti ofan á listaverð. Nettóálagningin sé töluvert lægri þegar dæmið sé gert upp. „Það finnst mér nú bara villandi svör. Ef listaverð er bara til sýnis til þess að gefa afslætti frá er rétt að breyta því. Menn eiga bara að vera með raunverð, í stað þess að vera í þessum sífellda leik með listaverð og afslætti frá listaverði, tel ég," segir Gísli Tryggvason. Hann segir að full ástæða sé til að kanna hvort það sé hreinlega ekki hrein fákeppni á þessum markaði hér á landi. Gísli segir aðspurður að FÍB hafi staðið sig mjög vel í hagsmunagæslu fyrir bifreiðaeigendur en hann geti spurt spurninga og gert athugasemdir, sem talsmaður neytenda, og hyggst hann gera það.

Ekki náðist í Hermann Guðmundsson, forstjóra N1 í morgun. Þá svaraði Einar Benediktsson, forstjóri Olís, ekki skilaboðum fréttastofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×