Innlent

Stöðugleikinn í uppnámi - brenndir eftir síðasta samstarf

Valur Grettisson skrifar

„Við erum einfaldlega brenndir eftir síðasta stöðugleikasáttmála," segir Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, en ríkisstjórnin hefur óskað eftir því að endurnýja stöðugleikasáttmálann.

Aðildarfélögum innan ASÍ hugnast það illa.

Ástæðan er sú að ríkisstjórnin stóð ekki við síðasta sáttmála sem Guðmundur vill meina að hafi verið svikinn.

Því vilji aðildarfélögin betri tryggingar fyrir því að ríkisstjórnin standi sína plikt.

Beiðni stjórnvalda kom fyrir allnokkru en leiðtogar og helstu samningamenn aðildarfélaga ASÍ hittust á fimmtudaginn og fóru yfir stöðu mála.

Flestir sem tóku til máls voru sammála um að ef það ætti að takast að ná tökum á þeim vanda sem nú er uppi í íslensku samfélagi þyrfti víðtækt samstarf aðila vinnumarkaðs, sveitarfélaga og hins opinbera.

En reynsla fundarmanna undanfarinna missera af samstarfi með ríkisstjórninni er slíkt að menn eru efins um að það þjónaði nokkrum tilgangi að stefna á áframhaldandi samtarf.

„Þeir brugðust í atvinnuuppbyggingu. Það á enn eftir að klára Icesave. Það er bara pólitísk kyrrstaða," segir Guðmundur sem gagnrýnir ekki eingöngu ríkisstjórnina heldur allt þingið. Guðmundur vill meina að stjórnmálaumræðan sé ekki til þess fallin að hefja uppbyggingu atvinnulífs hér á landi.

„Menn eru bara í stórskotaleik á Alþingi," segir Guðmundur sem er orðinn langþreyttur á pólitískum erjum og kyrrstöðu. Eðlilega í ljósi þess að um 20 prósent félaga Rafiðnaðarsambandsins eru fluttir til útlanda. Það gera þúsund manns. Félagið taldi áður 6000 þúsund.

„Þolinmæði manna er algjörlega á þrotum," segir Guðmundur. Aðspurður hvort viðræður við ríkisstjórnina séu á döfinni segir Guðmundu svo ekki vera.

Hann bendir hinsvegar á að allir kjarasamningar verði lausir í nóvember. Því munu menn væntanlega setjast niður með samningamönnum í október.

Fáist enginn niðurstaða má allt eins búast við því að einstök félög nýti verkfallsheimildir sínar að sögn Guðmundar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×