Innlent

Gosið enn í gangi - farið að bera á öskufalli

Myndin var tekin í eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar í gærkvöldi.
Myndin var tekin í eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar í gærkvöldi. MYND/Egill

Gosórói í Eyjafjallajökli fór vaxandi um ellefu leytið í gærkvöldi og hélst fram til klukkan þrjú í nótt, að heldur dró úr honum aftur og það er staðan núna í morgunsárið.

Þegar vísindamenn flugu yfir eldstöðvarnar með Landhelgisgæslunni í gærkvöldi voru tíu virkir gosstrókar á gossprungunni og risu sterkustu strókarnir í 100 til 150 metra hæð.

Gossprungan hefur styst frá því í gærmorgun og var í gærkvöldi 300 til 350 metra löng, en hún var allt að 500 metrum í upphafi. Hraun hefur runnið um einn kílómetra til norðausturs frá gossprungunni en ekki var hægt að kanna hraunrennsli til norðvesturs. Sáralítill gosmökkur var í gærkvöldi frá gosinu og undir morgun var útlit fyrir að ekki yrðu truflanir á flugi vegna hans.

Öskufall hófst í Fljótshlíð og alveg til Hvolsvallar í nótt, þar sem bílar eru allir gráir af ösku. Hún er hinsvegar fíngerð, en verið er að taka sýni úr henni til að kanna hvort hún er hættuleg skepnum.

Bændum hefur verið ráðlagt að taka skepnur í hús til öryggis. Mikil umferð var eystra í gærkvöldi en vegirnir upp á Fimmvörðuháls og í Þórsmörk eru lokaðir. Fjölskyldur af 14 bæjum þurftu að gista annarsstaðar í nótt, en verður leyft að sinna skepnum nú í morgunsárið. Það ræðst svo á fundi Almannavarna, sem hefst klukkan níu, hvort fólk fær að flytja aftur heim.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×