Viðskipti innlent

Ótvíræð tengsl milli Ólafs og Al-Thani kaupa í Kaupþingi

Rannsóknarnefnd Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að ótvíræð tengsl hafi verið á milli Ólafs Ólafssonar og kaupa Al-Thani á Kaupþingsbréfunum haustið 2008.

„Ólafur kom á sambandi Al-Thani og bankans, en í september 2008 samþykkti lánanefnd Kaupþings nokkur lán til Al-Thani og félaga sem honum tengjast, eitt þeirra sneri að fjármögnun á kaupum

Al-Thani á hlutabréfum í Kaupþingi, en hann keypti rúm 5% í bankanum í lok september 2008. Gögn bankans sýna ótvíræð tengsl á milli Ólafs Ólafssonar og kaupa Al-Thani á Kaupþingsbréfunum," segir í skýrslunni.

Hluti lánsins er greiddur inn á reikning Serval, félags í eigu Al-Thani, hinn hlutinn er greiddur inn á reikning Gerland, félags í eigu Ólafs Ólafssonar. Fjárhæðin er síðan flutt yfir á reikning Choice Stay, sem er félag í eigu sheikhsins og Ólafs, og þaðan er andvirðið síðan flutt yfir á vörslureikning Q Iceland Finance sem fjármagnaði Kaupþingsbréfin.

Samkvæmt minnisblaði innri endurskoðunar Kaupþings frá 21. Janúar 2009 er Serval-lánið uppgreitt í október 2008, fyrst með greiðslu frá Brooks Trading, félagi í eigu Al-Thani, þann 8. október, 12,5 milljörðum króna, og síðan með greiðslu frá Ólafi Ólafssyni þann 21. október að fjárhæð 402 milljónir króna.

Brooks Trading fékk lánaðar 50 milljónir dollara 19. September 2008 frá Kaupþingi undir því yfirskini að það væri fyrirframgreiddur hagnaður af viðskiptum með lánshæfistengd skuldabréf. Þetta lán er síðan framlengt 30. september 2008.

Hinn 8. Október 2008 skiptir Brooks Trading 50 milljónum dollara í krónur í Kaupþingi í Lúxemborg á 250 kr. fyrir dollarann og sama dag greiðir það 12,5 milljarða króna í láni Serval Trading eins og áður kom fram. Þannig er ljóst að lánið var borgað upp með láni frá Kaupþingi. Lánið til Gerland er enn ógreitt í janúar 2009. Það var án ábyrgðar.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×