Fótbolti

Solskjær tekinn við Molde

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Solskjær á blaðamannafundi í Molde í dag.
Solskjær á blaðamannafundi í Molde í dag. Nordic Photos / AFP

Norska úrvalsdeildarfélagið Molde tilkynnti í dag að Ole Gunnar Solskjær hafi verið ráðinn knattspyrnustjóri liðsins.

Solskjær hefur verið á mála sem leikmaður og þjálfari hjá Manchester United undanfarin fjórtán ár og tekur með sér aðstoðarþjálfara og markmannsþjálfara frá United.

Solskjær var keyptur frá Molde til United árið 1996 og er því að koma aftur til síns gamla félags.

„Ég kem nú heim með reynslu sem ætti að nýtast félaginu. Félagið hefur átt marga góða unga leikmenn í gegnum tíðina sem hafa mótað bæði félagið og norska knatspyrnu," er haft eftir Solskjær á heimasíðu Molde.

„Þetta er draumastarfið mitt. Ég hef rætt við Alex Ferguson, stjóra Manchester United, um minn feril og hann ráðlagði mér fara til félags sem er með eigendur, stjórnendur og fólk sem ég vil gjarnan starfa með. Valið var því auðvelt fyrir mig og mína fjölskyldu."

Þá er einnig haft eftir Ferguson sjálfum að hann hefur mikla trú á Solskjær sem þjálfara. „Ég held að frábær knattspyrnuferill hans sé góður grunnur fyrir hann sem þjálfara. Það er tímabært nú að Ole taki að sér sitt fyrsta starf sem knattspyrnustjóri. Hann mun standa sig vel í Molde og við óskum honum alls hins besta fyrir framtíðina."

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.