Innlent

Yfirheyrslur hafnar vegna rannsóknar sérstaks saksóknara

Úr safni.
Úr safni. Mynd/Arnþór Birkisson

Embætti sérstaks saksóknara hefur með höndum rannsóknir og réttarbeiðnir sem tengjast Exista en vegna þeirra fóru fram húsleitir í dag á 8 stöðum á Íslandi og 4 stöðum í Englandi samkvæmt tilkynningu frá embætti sérstaks saksóknara.

Þau mál sem eru til meðferðar varða í fyrsta lagi sölu á Bakkavör frá Exista samstæðunni á haustmánuðum 2008 þrátt fyrir ákvæði í lánasamningum um bann við sölu eigna undan samstæðunni án samþykkis kröfuhafa.

Í öðru lagi er til rannsóknar niðurfelling persónulegra ábyrgða á lánum sem veitt voru við kaup starfsmanna á hlutabréfum í félaginu.

Í þriðja lagi er til rannsóknar yfirfærsla skuldar og hlutabréfa í félag í eigu annars af tveimur forstjórum félagsins.

Í fjórða lagi er til rannsóknar tilkynning um hlutafjáraukningu í félaginu Exista um 50 milljarða og loks í fimmta lagi er til meðferðar réttarbeiðni frá erlendu ríki til öflunar gagna vegna rannsóknar erlendis.

Húsleitir hér á landi fóru fram að undangengnum úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur.

Yfirheyrslur í málinu hófust á sama tíma og standa enn.

Til rannsóknar eru ætluð brot gegn auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga, brot á hlutafélagalögum, ákvæði hegningarlaga um ranga upplýsingagjöf til stjórnvalds og eftir atvikum öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga og sérrefsilaga í tengslum við ofangreind sakarefni.

Umrædd mál varða verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda einstaklinga og fyrirtækja.

Aðgerðirnar í dag voru víðtækar og hófust með leit samtímis í hér á landi og á Englandi en aðgerðir hófust kl. 9:00 með leit samtímis á nokkrum stöðum. Alls tóku 30 manns þátt í aðgerðum hér á landi en í Bretlandi tóku 4 starfsmenn embættisins þátt í aðgerðum ásamt breskum lögreglumönnum og starfsmönnum SFO.

Við aðgerðirnar hér á landi naut embætti sérstaks saksóknara aðstoðar efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans auk tæknimanna frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir

SFO rannsakar hluti Exista í JJB Sports

Starfsfólk sérstaks saksóknara ásamt starfsfólki Serious Fraud Office í Bretlandi gerði húsleit hjá Exista klukkan níu í morgun samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

SFO með húsleitir á tveimur stöðum í Bretlandi

Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar eða Serious Fraud Office (SFO) fór í húsleitir á tveimur stöðum í Bretlandi, það er í London og Lincoln-héraði. Farið var inn á skrifstofur Exista og Bakkavarar á þessum stöðum.

Húsleitir hjá Existu og í London

Húsleitir standa yfir á vegum embættis sérstaks saksóknara. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu en gat ekki greint nánar frá málinu. Von væri á yfirlýsingu frá embættinu síðar í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu fer fram húsleit í höfuðstöðvum Exista í Ármúla
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.