Innlent

Oprah Winfrey mun fjalla um íslensku rústabjörgunarsveitina

Oprah Winfrey.
Oprah Winfrey.

„Það hringdi í mig framleiðandi og vildi nota myndskeið af björgunarsveitinni," segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi slysavarnarfélags Landsbjargar.

Framleiðandinn, sem starfar við spjallþátt sjónvarpsdrottningarinnar Opruh Winfrey, hafði samband við Ólöfu í kvöld og óskaði eftir að fá afnot af myndum og myndskeiðum sem sýna frá störfum íslensku rústabjörgunarsveitarinnar á Haítí.

Eins og flestir vita þá er þáttur Opruh einhver vinsælasti sjónvarpsþáttur veraldar. Að sögn Ólafar þá verður þátturinn með rústabjörgunarsveitinni sýndur næsta miðvikudag.

„Ég sagði honum auðvitað að það væri auðsótt mál," segir Ólöf en myndatökumaður á vegum Saga Film hefur fylgt sveitinni eftir á Haítí og skrásett öll björgunarafrek sveitarinnar undanfarna daga og reyndar síðustu tvö ár að sögn Ólafar.

Aðspurð segir Ólöf að framleiðandinn hafi ekki farið ítarlega í efnistök þáttarins en hann mun ekki eingöngu fjalla um íslensku sveitina heldur björgunarstarfið í heild sinni.

Íslenska sveitin verður því annar fulltrúi Íslands í þátt Opruh en spjallþáttadrottningin tók einnig viðtal við Svanhildi Hólm Valsdóttur um árið.

Rústabjörgunarsveitin er nú stödd í Port Au Prince. Líkamlegt ástand björgunarsveitarmannanna er gott að sögn Ólafar en þeir hafa fengið lítinn svefn undanfarið. Búist er við að þeir komi heim í vikunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×