Innlent

Annar maður handtekinn

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Nú síðdegis handtók hann einn mann til viðbótar í tengslum við sömu rannsókn og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings var handtekinn í dag.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Nú síðdegis handtók hann einn mann til viðbótar í tengslum við sömu rannsókn og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings var handtekinn í dag. Mynd/Daníel Rúnarsson

Nú síðdegis handtók sérstakur saksóknari einn mann til viðbótar í tengslum við sömu rannsókn og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings var handtekinn í dag. Hreiðar er grunaður um fjölmörg brot í starfi.

Ekki fæst uppgefið um hvern er að ræða. Samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar eru fangelsin á Litla Hrauni og við Skólavörðustíg yfirfull og því er líklegt að Hreiðari Má og manninum sem handtekinn var síðdegis verði áfram haldið föngnum á lögreglustöðinni á Hverfisgötu.

Farið var fram á tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag. Dómari tók sér sólarhrings umhugsunarfrest og verður Hreiðar Már því í haldi lögreglu að minnsta kosti til morguns. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að Hreiðar Már hafi verið handtekinn við lok skýrslutöku.

Hreiðar Már var áberandi í íslensku viðskiptalífi. Hann hóf störf hjá Kaupþingi árið 1994. Níu árum síðar varð hann forstjóri en hann hafði verið aðstoðarforstjóri um nokkurt skeið. Hann gegndi því starfi þar til bankinn fór í þrot í október 2008. Laun Hreiðars voru talin í milljörðum króna en samkvæmt rannsóknarskýrslunni fékk hann rúma þrjá milljarða króna í laun á árunum 2004-2008. Hreiðar var lengi vel skattakóngur í Reykjavík og á landsvísu. Eftir hrunið stofnaði hann ráðgjafafyrirtækið Consolium ásamt Ingólfi Helgassyni sem einnig gegndi stöðu forstjóra bankans. Þeir félagar opnuðu svo útibú í Lúxemborg og er Hreiðar Már skráður með lögheimili þar.

Sérstakur saksóknari hefur að undanförnu haft nokkur mál varðandi starfsemi Kaupþings til rannsóknar, t.a.m. meinta allsherjarmarkaðsmisnotkun og meint sýndarviðskipti sjeiksins Al Thani. Í febrúar var svo gerð húsleit í Banque Havilland í Lúxemborg sem áður var dótturfélag Kaupþings.




Tengdar fréttir

Hreiðar Már handtekinn vegna gruns um fjölmörg brot

Til grundvallar á handtöku sérstaks saksóknara í dag liggur grunur um skjalabrot, auðgunarbrot, brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti, þ.m.t. markaðsmisnotkun og loks gegn hlutafélagalögum.

Sérstakur saksóknari handtók Kaupþingsstjórnanda

Sérstakur saksóknari handtók í hádeginu í dag karlmann i tengslum við rannsókn á málefnum Kaupþings. Ekki liggur fyrir að svo stöddu um hvaða einstakling ræðir en samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis er um einn af æðstu stjórnendum gamla bankans að ræða.

Hreiðar gæti átt 8 ára fangelsi yfir höfði sér

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, gæti átt yfir höfði sér allt að átta ára fangelsi veðri hann fundinn sekur um þau brot sem hann er grunaður um. Sérstakur saksóknari handtók Hreiðar Má í dag eftir skýrslutökur.

Hreiðar Már Sigurðsson handtekinn

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var handtekinn af sérstökum saksóknara í hádeginu í dag. Farið var fram á tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag. Dómari tók sér sólarhrings umhugsunarfrest og verður Hreiðar Már því í haldi lögreglu að minnsta kosti til morguns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×