Innlent

Framsókn mun ekki taka þátt í núverandi stjórnarsamstarfi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson er þingflokksformaður framsóknarmanna. Mynd/ Vilhelm.
Gunnar Bragi Sveinsson er þingflokksformaður framsóknarmanna. Mynd/ Vilhelm.
Hugsanleg þátttaka Framsóknarflokksins í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi hefur ekki verið rædd á milli flokka, segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, sagðist í samtali við Fréttablaðið í dag íhuga að segja sig úr þingflokki VG. Fari svo að hún, Ásmundur Einar og Atli Gíslason segi sig frá stjórnarmeiirhlutanum standa ríkisstjórnarflokkarnir eftir með minnsta mögulega meirihluta sem hægt er að hafa.

„Þetta hefur ekki verið rætt, ekki með formlegum hætti og ekki þreifað á því. En maður veit svo sem ekki hvað einstakir þingmenn eru að tala um milli hinna ýmsu flokka," segir Gunnar Bragi. Aðspurður hvort hann hafi tekið þátt í tali á milli einstakra þingmanna segir hann ekki vera meirihlutavilja á meðal framsóknarmanna að fara inn í þessa ríkisstjórn eins og hún standi.

Gunnar Bragi segir þó að framsóknarmenn séu ekki endilega að kalla eftir nýjum kosningum. „Við höfum sagt það, bæði ég og formaður flokksins að við sæjum fyrir okkur þjóðstjórn í einhvern tíma og síðan kosningar. En það er ekki í myndinni að við förum að bæta okkur við ríkisstjórn sem er komin að fótum fram að lappa upp á hana einhvern veginn," segir Gunnar Bragi. Hann bætir því við að framsóknarmenn ætli ekki að ganga að málefnasamningi sem þegar hafi verið saminn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×