Innlent

Húsleitir hjá Existu og í London

Úr safni.
Úr safni. Mynd/Arnþór Birkisson

Húsleitir standa yfir á vegum embættis sérstaks saksóknara. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu en gat ekki greint nánar frá málinu. Von væri á yfirlýsingu frá embættinu síðar í dag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu fer fram húsleit í höfuðstöðvum í eignarhaldsfélaginu Existu í Ármúla. Exista var stórhluthafi í Kaupþingi og Bakkavör.

Þá er Serious Fraud Office (SFO) að framkvæma húsleitir í London samkvæmt heimildum fréttastofu.

Aðaleigendur Bakkavarar eru bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir en þeir eru með höfuðstöðvar sínar í London. Ekki er ljóst hvort breska efnahagsbrotadeildin hafi framkvæmt húsleitir hjá þeim í Bretlandi.

Ekki er ljóst hvaða mál er til rannsóknar. Nýi Kaupþing kærði hinsvegar forsvarsmenn Exista til sérstaks saksóknara vegna sölu á hlut Exista í Bakkavör Group þann 11. september síðastliðinn.

Þeir eru sakaðir um skilasvik vegna viðskiptanna.

Þá kærði Nýi Kaupþing einnig þá starfsmenn Deloitte og Logos lögmannsþjónustu sem önnuðust tilkynningu til hlutafjárskrár vegna hlutafjáraukningar Exista í desember 2008.

Ekki er ljóst hvort húsleitirnar tengist þessum málum. Ekki hefur náðst í forstjóra Exista vegna málsins.

Áður hefur embætti sérstaks saksóknara meðal annars framkvæmt húsleitir hjá Byr, MP banka, Milestone, Sjóvá og endurskoðunarfyrirtækjunum PWC og KPMG.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×