Tíska og hönnun

Hefur engan áhuga á tísku

Sara McMahon skrifar
Hildur Knútsdóttir hefur vakið athygli fyrir tískublogg sitt. Alter-egó hennar skrifar færslurnar en sjálf hefur hún lítinn áhuga á tísku. Fréttablaðið/GVA
Hildur Knútsdóttir hefur vakið athygli fyrir tískublogg sitt. Alter-egó hennar skrifar færslurnar en sjálf hefur hún lítinn áhuga á tísku. Fréttablaðið/GVA
Tískubloggið tiskublogg.blogspot.com hefur vakið nokkurt umtal vegna hnyttinna og oft á tíðum gagnrýninna skrifa tískuunnanda sem kallar sig aðeins h.

Það er Hildur Knútsdóttir sem stendur á bak við síðuna og að hennar sögn hóf hún að blogga í leiðindum sínum. „Ég er að fara að gefa út mína fyrstu skáldsögu hjá Forlaginu næsta vor. Ég var að bíða eftir að fá uppkastið að henni aftur frá ritstjóranum og ákvað að byrja að blogga á meðan," segir Hildur sem er ekki mikill aðdáandi tískublogga.

„Mér finnst þau almennt frekar leiðinleg og skil ekki alveg vinsældir þeirra," útskýrir hún.

Hildur kveðst þó hafa gaman af bloggskrifunum en minna gaman af rannsóknarvinnunni sem hún segir fylgja þeim. „Maður þarf að þekkja markhópinn og þess vegna þurfti ég að leggjast í svolitla rannsóknarvinnu og lesa fjölda tískublogga sem mér fannst ekki gaman," segir hún og hlær.

Hildur segist hafa skapað hið tískumeðvitaða alter-egó vegna þess að hún sjálf hafi ekki nægt tískuvit til að halda úti tískubloggi. „Alter-egóið kom bara af sjálfu sér þegar ég byrjaði að skrifa. Við erum mjög ólíkar að öllu leyti, deilum ekki sama smekk á fötum og skrifum líka mjög ólíkt. H. er líka gjörn á að taka öllu svolítið of bókstaflega," segir Hildur sem hefur aflað sér óvinsælda vegna þessa og hafa Pjattrófurnar meðal annars meinað henni aðgang að skilaboðakerfinu á síðu sinni.

Hildur hyggst þó halda áfram tískuskrifum sínum svo lengi sem hún hefur tíma og áhuga. „Ég mun halda þessu áfram svo lengi sem mér finnst þetta skemmtilegt og ég hef tíma til," segir þessi hæfileikaríki penni að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×