Erlent

„Þetta mistókst, sem betur fer.“

Taimour Abdulwahab.
Taimour Abdulwahab.
„Hann var með þrjú sprengjusett og ég held ekki að hann hafi ætlað sér að sprengja bara sjálfan sig í loft upp," segir Tomas Lindstrand, saksóknari í Stokkhólmi. „Þetta mistókst, sem betur fer."

Sprengjuárásin sem gerð var í miðborg Stokkhólms á laugardag kostaði engan annan en árásarmanninn lífið, en tveir vegfarendur særðust.

Lindstrand segir að sprengjumaðurinn hafi verið Taimour Abdulwahab, 28 ára gamall maður sem var ættaður frá Mið-Austurlöndum en fékk sænskan ríkisborgararétt fyrir átján árum. Hann hafði búið í Bretlandi undan­farin tíu ár en kom til Svíþjóðar núna í tengslum við afmæli föður síns.

Skömmu fyrir dauða sinn hafði hann sent hótunarskeyti í tölvupósti, þar sem meðal annars var talað um „heilagt stríð".

„Hann var vel búinn sprengjuefnum, svo ég tel óhætt að giska á að ferðinni hafi verið heitið á stað þar sem væri sem allra flest fólk, kannski á aðalbrautarstöðina, kannski í Åhlens-verslunarmiðstöðina," sagði Lindstrand.

Hann segir að Abdulwahab hafi verið með sprengjur festar við sig, fleiri sprengjur í bakpoka og loks var hann með „eitthvað sem leit út eins og þrýstipottur".

Að minnsta kosti hluta tímans í Bretlandi bjó hann í borginni Luton, sem er skammt norðan við London. Þar stundaði hann háskólanám árin 2001 til 2004. Einnig sótti hann þar miðstöð múslima í nokkra mánuði árin 2006 og 2007, en hætti að koma þangað eftir að hann fékk á sig gagnrýni fyrir að vera of róttækur.

Farasat Latif, ritari moskunnar í Luton, segir hann hafa verið vinalegan og líflegan mann sem til að byrja með var vel liðinn. Það hafi þó breyst þegar hann fór að boða öfgar í trúnni.

„Dag nokkurn við morgunbæn í ramadan-mánuði - þá voru um hundrað manns komnir þar saman - stóð bænaformaðurinn upp og afhjúpaði hann, varaði við hryðjuverkum, sjálfsvígssprengingum og slíku. Hann vissi að þessu var beint gegn sér og stormaði út úr moskunni. Hann sást aldrei aftur," sagði Latif.

Á sunnudaginn birtist nafn Abdulwahabs á vefsíðu tengdri hryðjuverkasamtökunum Al Kaída. Skilaboð frá honum bárust sænsku lögreglunni og sjónvarpsstöðinni TT á sunnudag, stuttu áður en hann sprengdi sig í loft upp í Stokkhólmi. Í skilaboðunum var minnst á heilagt stríð, talað um þátttöku sænska hersins í hernaðinum í Afganistan og minnst á sænska teiknarann, sem teiknaði Múhameð spámann í líki hunds.gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×