Viðskipti innlent

Hollendingar hunsuðu hugmyndir um varasjóð Landsbankans

Jónas Fr. Jónsson.
Jónas Fr. Jónsson.

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins vísar ásökunum um lygar á bug en fyrrverandi yfirmaður hollenska fjármálaeftirlitsins og seðlabankans, Arnold Schilder, sagði fyrir þingnefnd þar í landi að trekk í trekk hefðu Íslendingar logið að sér og starfsmönnum sínum. Jónas segir að stungið hafi verið upp á að Landsbankinn setti upp varasjóð í Hollandi en þær hugmyndir hafi aldrei verið afgreiddar af hálfu Hollendinga.

„Starfsmenn Fjármálaeftirlitins gáfu þær upplýsingar um fjárhag Landsbankans sem þeir töldu réttar hverju sinni byggðar á fyrirliggjandi gögnum frá bankanum og hálfsársuppgjöri 2008, árituðu af endurskoðendum bankans," segir Jónas í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér. „Ásökunum um lygar starfsmanna Fjármálaeftirlitsins er vísað á bug, en þar lagði fólk sig fram um að sinna starfi sínu af fagmennsku og heiðarleika."

Jónas bendir á að útibú Landsbankans í Hollandi hafi hafið starfsemi sína á árinu 2006. Eftir að hafa fengið grænt ljós frá hollenskum yfirvöldum í kjölfar samninga tryggingasjóða landanna hóf útibúið að bjóða innlánsreikninga fyrir almenna sparifjáreigendur vorið 2008. „Samkvæmt Evrópureglum fóru hollensk yfirvöld með eftirlit með neytendavernd og lausafé útibúsins, auk ýmissa annarra heimilda ef nauðsyn krefði."

Hefði munað um minna

„Í viðræðum við Hollendinga í ágúst og september 2008 var rætt um að Landsbankinn setti upp varasjóð í Hollandi," segir Jónas ennfremur. Tillagan hafi hinsvegar ekki verið afgreidd af hálfu Hollendinga. „Hefði það verið gert hefði sjóðurinn getað numið hátt í 600 milljónum evra þegar bankinn féll. Hefði þar munað um minna," segir Jónas.

Hann ítrekar einnig að enginn hafi séð fyrir þær einstæðu fjármálahamfarir sem urðu í heiminum í lok september og byrjun október 2008. „Í Hollandi þurfti að þjóðnýta Fortis banka, ING bankinn þurfti verulega fjárhagsaðstoð frá ríkinu og smærri fjármálaþjónustufyrirtæki s.s. Aegon og SNS fengu ríkisaðstoð, auk almennra aðgerða. Haustið 2009 féll DSB bankinn. Embættismenn í Hollandi vilja beina athyglinni frá þessum heimavanda með yfirlýsingum og hörku gagnvart Íslendingum um Icesave."








Tengdar fréttir

Raunveruleikinn var allur annar en bankarnir sögðu

„Upplýsingar sem FME sendi til Hollands komu frá bönkunum og voru einnig þær upplýsingar sem FME hafði aðgang að. Síðar kom í ljós að þær voru ekki réttar." Þetta segir Gunnar Andersen, forstjóri FME um ummæli fyrrverandi yfirmanns hollenska fjármálaeftirlitsins og seðlabanka, Arnolds Schilder.

Segir Íslendinga hafa logið að Hollendingum

Fyrrverandi stjórnarformaður hollenska fjármálaeftirlitsins segir að Íslendingar hafi logið að hollendingum trekk í trekk þegar þeir síðarnefndu óskuðu eftir upplýsingum um ástand íslenska fjármálakerfisins, misserin fyrir hrun. Þetta kom fram máli Arnolds Schilder sem í dag bar vitni fyrir rannsóknarnefnd á hollenska þinginu sem rannsakar fjármálakreppuna sem gengið hefur yfir heiminn.

Ýmsum trúnaðarupplýsingum um Icesave verður aflétt

„Ég trúi því að innan skamms muni koma fram nýjar upplýsingar sem muni skýra það í hversu erfiðri stöðu íslensk stjórnvöld hafa verið í þessu máli," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, aðspurður út í ummæli fyrrverandi stjórnarformanns hollenska fjármálaeftirlitsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×