Skoðun

Alkemistinn

Tryggvi Þór Herbertsson skrifar

Það er rétt hjá Andra Snæ Magnasyni að það getur oft verið gagnlegt til að varpa ljósi á hlutina að tala um þá á útlensku. Prófið til dæmis að segja erlendum viðmælanda ykkar frá því að gnægð náttúruauðlinda sé slík á Íslandi (hlutfallslega) að landið sé eitt ríkasta land heims. Segið sama manni að við eigum við stórkostlega efnahagslega erfiðleika að stríða og það sé hópur fólks sem ekki vilji nýta þessar auðlindir til hagsbóta fyrir alla Íslendinga. Haldið áfram og segið frá því að fyrir nokkrum árum hafi verið reist orku- og álver sem nú skapi um fimmtung útflutningstekna landsins og að það sé til fólk á Íslandi sem finnist það vera klikkun. Haldið enn áfram og segið frá því að alþjóðafyrirtæki á Íslandi séu sögð dónar, þau séu sögð tengd spillingu og hugsanlega mafíunni líka. Eflaust myndi útlendingurinn hrista hausinn yfir þessu öllu saman og segja að þetta væri ekki eðlileg hugmyndafræði. En ég myndi segja á móti: á öllum málum eru minnst tvær hliðar og að tala bara um eina sé ómerkilegur áróður! Hér er hin hliðin á peningi Andra Snæs.

Hagvaxtarhyggja

Það er rétt hjá Andra Snæ; það er til mælikvarði á alla hluti. Sá mælikvarði sem hagfræðingar nota á ríkidæmi þjóða er landsframleiðsla á mann og vöxtur hennar. Hagvöxtur er því mælikvarði á hve ríkidæmið eykst mikið milli ára. Landsframleiðsla er samsett úr nokkrum liðum: fjárfestingu, einkaneyslu, samneyslu og muninum á útflutningi og innflutningi (sem í daglegu tali er kallaður vöruskiptajöfnuður). Þessi framsetning er kölluð því stofnanalega heiti: ráðstöfunaruppgjör vergrar landsframleiðslu.

Augljóst er að ef einhver áðurgreindra liða vex, þá mælist hagvöxtur. Ef til að mynda peningum er ráðstafað til að kaupa bensín á sjúkrabílinn sem nær í sjúklinginn þá er verið að bæta við samneysluna ef ríkið rekur bílinn - en einkaneysluna ef einkaaðili rekur hann. Það hefur bæst við landsframleiðsluna, það hefur orðið hagvöxtur. Ef hinsvegar ég fer út í garð og næ mér í ber til að sulta (án kostnaðar) þá hefur ekki átt sér stað nein ráðstöfun peninga og þar af leiðandi hefur ekki orðið neinn hagvöxtur. Annað dæmi er um ráðskonuna sem giftist bóndanum. Fyrir giftingu var hún á launum en á eftir er vinnan framlag til heimilisins. Ráðskonan datt út af þjóðhagsreikningunum við giftinguna án þess að hafa breytt vinnulagi sínu á nokkurn hátt. Þetta finnst mörgum dularfullt og til marks um gagnleysi mælikvarðans landsframleiðsla.

En af hverju er hagvöxtur eftirsóknarverður? Það er af þeirri einföldu ástæðu að við viljum efnahagslegar framfarir til handa íbúunum. Ef við til að mynda viljum bæta kjör öryrkja þá eykst samneyslan og það mælist hagvöxtur. En það verður að afla peninganna sem ráðstafa á í örorkubæturnar og til þess þurfum við að framleiða. Ef framleiðsla vex ekki þá getum við ekki bætt kjör öryrkjans nema taka frá einhverju öðru. Þess vegna þurfum við að framleiða meira í dag en í gær. Þannig bætum við lífskjörin. Ekki með því að skipta tekjunum upp á nýtt með endurdreifingu um skattkerfið eins og sumir virðast halda.

Víkur þá sögunni að útflutningi og innflutningi. Ástæðan fyrir því að við viljum flytja út vörur og þjónustu er að við viljum afla peninga til að flytja inn vörur og þjónustu. Íslendingar geta ekki framleitt allt það sem nútímalifnaðarhættir krefjast. Við getum til að mynda ekki framleitt bíla, flugvélar og sjónvarpstæki með hagkvæmum hætti. Þess vegna flytjum við inn. Til þess að geta flutt inn bíla, sjónvarpstæki og flugvélar flytjum við út fisk, þjónustu við ferðamenn, ál, hugvit, járnblendi og tölvuleiki.

Hlutfallslegir yfirburðir

Fyrir rúmum 200 árum benti hinn merki hagfræðingur David Ricardo á hin augljósu sannindi - að því er virðist fyrir nútímamanninn - um hlutfallslega yfirburði þjóða. Við Íslendingar gætum auðvitað sleppt því að flytja inn bíla og framleitt þá sjálfir. En það væri í meira lagi óhagkvæmt. Þess vegna framleiðum við það sem við erum góð í að framleiða: fisk og orku, seljum á heimsmarkaði og notum afraksturinn til að skipta við þjóðir sem hafa hlutfallslega yfirburði í að framleiða eitthvað sem við sækjumst eftir. Þessi einfalda staðreynd er grunnurinn að því hvers vegna við stundum alþjóðaviðskipti. Því frjálsari sem þessi viðskipti eru því betur fá að njóta sín hlutfallslegir yfirburðir þjóða og því meiri er efnahagsleg velferð íbúanna.

Ísland er óvenju ríkt að náttúruauðlindum. Þannig eru ein gjöfulustu fiskimið heims innan lögsögu okkar, mikil orka er í fallvötnum og í iðrum jarðar og náttúrufegurð og fjölbreytni er með slíkum eindæmum að útlendingar eru tilbúnir til að leggja á sig löng ferðalög til að njóta íslenskrar náttúru. Við höfum lengi verði fiskútflytjendur, orku höfum við flutt út allt frá því á sjöunda áratugnum og stöðugt fleiri ferðamenn leggja leið sína til landsins. Það er vegna hlutfallslegra yfirburða sem við framleiðum hlutfallslega mikið af orku og veiðum hlutfallslega mikinn fisk. Við framleiðum 0,1 prósent þeirrar raforku sem framleidd er í heiminum og við veiðum 1,7 prósent þess fisks sem er veiddur í heiminum. Afraksturinn (virðisaukann) af þessum útflutningi höfum við síðan notað til einkaneyslu, samneyslu og fjárfestingar, sem almennt hefur verið Íslendingum til hagsbóta á undanförnum áratugum.

Nú er það svo að ódýrasta leiðin til að flytja út orku og fá fyrir það gjaldeyristekjur (sem við getum síðan notað til að flytja inn það sem okkur vanhagar um) er að nota hana til að bræða saman súrál og kolefni svo úr verði ál. Við flytjum inn súrál og kolefni en ál út. Munurinn á innflutningi hráefna og útflutningi áls er þá afrakstur þessarar iðju sem notaður er til að borga laun og fjármagnskostnað, til að borga orkufyrirtækjunum fyrir rafmagnið og til að greiða álfyrirtækinu hagnað. Vandfundinn er orkufrekur iðnaður sem skapar fleiri störf, þar með talið störf sem krefjast menntunar og eru vel borguð. Auk þess styrkjast stoðir atvinnulífsins í kringum álverin og þar spretta upp ný fyrirtæki. Þetta sjáum við glöggt í Fjarðabyggð. Þetta er ástæða þess að það er eftirsóknarverðara að framleiða ál og flytja út en nýta raforkuna í eitthvað annað. Það gefur mesta afraksturinn!


En er þetta samt ekki klikkun?

Þá er ef til vill ekki úr vegi að spyrja hvort það sé ekki óskynsamlegt að setja mörg egg í sömu körfuna. Hvort verðsveiflur á áli geti ekki verið varasamar og hvort ekki sé viturlegra að dreifa áhættunni betur. Við því er það svar að heimsmarkaðsverð á hrávörum sveiflast mjög í takti. Þegar bjartsýni ríkir í heiminum og hagvöxtur er mikill þá er eftirspurn eftir öllum hrávörum mikil og verð hátt. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða ál, kísilmálm, gagnageymslur, olíu eða grænmeti - uppsveiflan gefur gott verð. Því er best að láta hagkvæmni ráða för þegar framleiðslukostirnir eru metnir. Þess vegna framleiðum við ál. En auðvitað er æskilegt að setja fleiri stoðir undir íslenskt efnahagslíf. En þær stoðir verða að byggja á hlutfallslegum yfirburðum okkar og hagkvæmni. Þannig aukum við efnahagslega velferð á Íslandi.

Einn af fylgifiskum framleiðslu er mengun. Þannig losar 350 þúsund tonna álver um 500 þúsund tonn af koltvísýringi (CO2) á ári. Félagi minn Sigmundur Ernir Rúnarsson benti mér nýlega á merkilega tölfræði. Af þremur stærstu útflutningsgreinum okkar: ferðamennsku, fiskveiðum og stóriðju, þá mengar ferðamennskan mest, þar á eftir fiskveiðar og að síðustu álframleiðslan miðað við þann gjaldeyri sem greinarnar skapa. Merkilegt ekki satt?

Eða er Simmi kannski bara miðaldra karl sem hatar konur?
Samhengi hlutanna getur oft tekið á sig undarlega mynd. Árið 2008 var Alcoa búið að setja mikla peninga í rannsóknarboranir til að undirbúa það að reisa álver að Bakka við Húsvík. Seint sumarið 2008 tók umhverfisráðherra ákvörðun upp á sitt einsdæmi, að því er virðist, að setja orkuframkvæmdir og álver í sameiginlegt umhverfismat sem hefði tafið framkvæmdina mikið. Skemmst er frá því að segja að Alcoa tók ákvörðun um slá Bakka af og reisa fremur álver í Sádí-Arabíu (og reyndar einnig í Kanada og í New York-fylki). Framleiðsla hefur nú hafist í þessu álveri í Arabíu. Það notar orku sem er framleidd með brennslu jarðgass. Heildarlosun koltvísýrings verkefnisins er um ein milljón tonna á ári. Um 500 þúsund vegna álvers og um 500 þúsund vegna orkuversins. Ákvörðun umhverfisráðherra, sem mig grunar að hafi verið tekin í þágu náttúruverndar, leiddi því til 500 þúsund tonna meiri losunar koltvísýrings en ef verkefnið að Bakka hefði fengið grænt ljós. Svona getur lífið nú oft verið snúið!

Þá eru einhverjir sem halda því fram að það sé enginn virðisauki af stóriðju og fara út í ótrúlegar reikningskúnstir til að sýna fram á vitleysuna. En er ekki langbest að nota Landsvirkjun sem mælikvarða á virðisaukann? Um 70 prósent af tekjum Landsvirkjunar hafa komið af sölu raforku til stóriðju. Eigið fé fyrirtækisins er um 200 milljarðar króna og virði þess gæti verið að minnsta kosti tvisvar sinnum það. Ekki dónaleg arðsemi það.

Skuldir orkufyrirtækjanna

Það er einnig rétt hjá Andra Snæ að skuldir orkufyrirtækjanna er miklar - en eignirnar eru enn meiri. Skuldirnar mældar í krónum hækkuðu gríðarlega við hrun krónunnar. Hins vegar hafa þær aðeins hækkað um það, sem nemur vöxtum í erlendum gjaldmiðlum. Megnið af tekjum Landsvirkjunar er í erlendum gjaldmiðlum, þannig að greiðslugetan hefur ekkert breyst - þrátt fyrir að skuldir hafi hækkað í krónum. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar í lok árs 2006 var 26,7 prósent og hafði hækkað í 32,6 prósent við lok árs 2009. Skuldir voru 14,18 sinnum EBIDA (hagnaður fyrir fjármagnsliði) árið 2006 og höfðu lækkað í 10,39 sinnum EBIDA árið 2009. Það eru ekki mörg fyrirtæki sem geta státað af slíkum árangri á þessum erfiðu tímum.

Öðru máli gegnir um OR og HS-orku, þar sem tekjur þeirra fyrirtækja eru að mestu í íslenskum krónum. HS-orka er einkafyrirtæki og það mun án vafa spjara sig. Fréttir herma að eigendurnir ætli að leggja meira hlutafé til fyrirtækisins. OR er hinsvegar vandamál útsvarsgreiðenda í Reykjavík. Greinilegt er að áhættustjórn hefur ekki verið í hávegum höfð hjá fyrirtækinu því of mikil áhætta var tekin með því að hafa lánin í svo miklum mæli í erlendri mynt en tekjurnar í krónum. Þetta er nauðsynlegt að leiðrétta um leið og auka verður tekjur í erlendum gjaldmiðlum - selja meiri orku til útflutningsfyrirtækja sem greiða í gjaldeyri. Þess ber reyndar að geta að Landsvirkjun selur nærri 4/5 allrar raforku í landinu (rúmar 12.500 gígavattstundir árið 2009) og því óhætt að segja að fyrirtækið sitji nær eitt að borðinu hvað varðar raforkuframleiðslu.

En það er nauðsynlegt að leita nýrra leiða til fjármögnunar þegar ráðist verður á ný í virkjanir og hefur verkefnafjármögnun verið nefnd í því skyni. Þá er áhættan einangruð við afmörkuð verkefni og ekki kemur til að orkufyrirtækjunum sé stefnt í voða ef eitthvað bregður út af.

Það er góð áhættustýring. Það er því ekki rétt að það sé nauðsynlegt að auka skuldir orkufyrirtækjanna beint með tilheyrandi áhættu ef ráðist er í nýjar virkjanir. Jafnframt er það góð latína að laða fremur til Íslands fjárfesta og hætta að einblína á að lokka hingað lánardrottna. Þá er ekki úr vegi að nefna að ég er þeirrar skoðunar að við virkjun jarðhita og fallvatna verði að fara að náttúruverndarsjónarmiðum eins og þeim sem koma fram í Rammaáætlun.

Alkemistar

Á undanförnum árum hefur blómstrað nýr iðnaður í heiminum. Þessi iðnaður gengur út á að vera á móti flestu sem elítan í bisness og stjórnmálum - borgarastéttin - tekur sér fyrir hendur. Þar ægir saman alls konar hugmyndum sem flestar standa þó á grunni and-kapitalisma og and-alþjóðavæðingar. Sennilega er frægastur þessara ný-iðnaðarmanna á alþjóðavísu Michael Moore og innanlands títtnefndur Andri Snær Magnason. Andri Snær bætir reyndar um betur og hellir einhverskonar vist-femínisma í súpuna. Málflutningurinn er póstmódernískur - allt gengur ef góð saga er sögð.

Drengirnir sem áður voru hetjur framtíðarinnar í óklipptu draumalandinu eru nú andhetjur og klikkhausar með fósturfitu í hárinu. Ný-iðnaðarmennirnir eru sannir alkemistar - ekki að þeir búi til gull úr skít heldur fá þeir greitt í gulli fyrir að kasta skít.

Gallinn við þennan nýja iðnað er að þar er ekki um neina framleiðslu að ræða - hann þrífst á öryggisleysi fólks, óánægju með eigið hlutskipti, hræðslu við framfarir og því að flestir geta eytt þúsundkalli í vitleysuna. En það er ekki hægt að bæta kjör öryrkjans með því að segja skemmtilegar sögur!

Áróður alkemistanna hér á Íslandi hefur leitt til þess að kominn er til sögunnar hávær hópur fólks sem trúir því að hér á landi sé stunduð náttúrurányrkja á Avatar-skala. Þeir sem stjórna eru miðaldra málaliðar sem samsama sig svo feðraveldinu að þeir eru hættulegir - klikkaðir. Þeir vilja kúga náttúruna líkt og þeir kúga konur. Oflætið er slíkt að þeir vilja tvöfalda allt! Svona til að gera sögurnar enn meira krassandi er græðgi, mútum og spillingu (og nú síðast geðveiki) bætt inn. Veikgeðja ráðamenn verða ráðalausir af málflutningnum. Árangur málflutningsins endurspeglast í kyrrstöðunni sem nú kæfir allt á Íslandi vegna hræðslu stjórnmálamanna sem stjórnast af skoðanakönnunum. Ergó, alkemistarnir með málflutningi sínum verða því til þess að ekki er hægt að bæta kjör öryrkjans. Álhausar eins og ég skilja ekki svona kálhausa!

Og hvers eigum ég og Jón vinur minn að gjalda?

Jóni [Gunnarssyni þingmanni Sjálfstæðisflokks] vini mínum þykir gott að fá sér í nefið en stöffið er keypt í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins - það er ekki borað eftir því. Og víst er Katrín Fjeldsted mæt og vel menntuð kona en það er ekki vegna þess að hún er sammála Andra Snæ (að hans sögn). Við Jón erum hins vegar ekki sammála Andra Snæ. Vegna þessa skoðanaágreinings okkar er ekki hægt að draga þá ályktun að við séum óðir og að Sjálfstæðisflokknum sé að hnigna. Það er ad hominem rökfræði - frekar plebbalegt!

En eins og áður segir er það rétt hjá Andra Snæ að til eru mælikvarðar á alla hluti. Að víkja nægjanlega langt frá því sem getur talist eðlileg hegðun í einhverjum skilningi er í daglegu tali oft kallað geðveiki, brjálæði eða klikkun. Að vilja nýta orkulindir Íslendinga til framfara, eins og ég og Jón vinur minn viljum gera, getur á engan mælikvarða talist geðveiki, brjálæði eða klikkun. Því hlýtur sú spurning að hanga í loftinu hvort góðviljaður rithöfundur sem mælir miðaldra karlpening heillar þjóðar með slíkum mælikvarða hafi þar ef til vill óafvitandi verið að mæla sjálfan sig!
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.