Viðskipti innlent

Stjórnarmenn vissu ekki um Black Sunshine

Stjórnarmenn í gamla Kaupþingi heyrðu fyrst um félagið Black Sunshine hjá fréttamanni Stöðvar tvö. Bandarísk undirmálslán sem Kaupþing fjárfesti í enduðu í þessu félagi í Lúxemborg.

Kaupþing fjárfesti í skuldabréfum fyrir 8 milljarða evra í gegnum breskt dótturfélag sitt. Hluti þessara skuldabréfa voru bandarísk undirmálslán en heimtur af slíkum lánum eru í kringum 2%. Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að Kaupþing hafi í stað þess að afskrifa hluta þessara lána flutt þau í félagið Black Sunshine og fært sem lán í bókum bankans.

Þannig var bókhaldið fegrað, því í stað afskrifta voru færðar eignir í formi lánsins. Þessu hafnar Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, í yfirlýsingu í dag. Hann segir að ársreikningurinn 2007 hafi gefið skýra og rétta mynd af stöðu bankans þar sem skuldabréfin hafi ekki verið í vanskilum í árslok 2007. Lánið, eða „eignin" í Black Sunshine var þó heldur ekki afskrifað á fyrsta og öðrum ársfjórðungi 2008.

Félagið Black Sunshine er með heimilisfesti í Lúxemborg. Hreiðar Már segir að félagið sé í eigu sjálfseignarstofnunar. Hvorki hafa fengist frekari upplýsingar um hana, né hverjir stóðu að stofnun Black sunshine.

Fréttastofa hafði í dag samband við Gunnar Pál Pálsson og Hjörleif Jakobsson, fyrrverandi stjórnarmenn í Kaupþingi. Þeir mundu hvorugir eftir að hafa heyrt talað um Black Sunshine fyrr og ekki á stjórnarfundum í Kaupþingi.

Þar hafi aftur á móti verið rætt um uppgjör breska dótturfélagsins. Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri KPMG sem endurskoðaði reikninga Kaupþings, sagðist í samtali við fréttastofu ekki vilja tjá sig um einstök mál viðskiptavina.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×