Innlent

„You ain´t seen nothing yet“

Íslendingar eru djarfir, harðir í horn að taka og áhættusæknir. Þess vegna, meðal annars, hafa útrásarvíkingarnir unnið slíka sigra á erlendri grundu, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ræðu í Lundúnum árið 2005 þar sem hann freistaði þess að útskýra hvað íslenskir athafnamenn hefðu framyfir útlenda.

Æði margt af því sem sagt var og gert í bankabólu Íslands hljómar ankannalega með baksýnisgleraugunum. Forsetinn hefur eftir bankahrun verið sakaður um að hafa verið ötull við að hylla útrásina í ræðum. Eina slíka hélt hann í maí 2005 á Walbrook klúbbnum í London, sem er lokaður klúbbur fyrir forkólfa í viðskiptalífi þar sem er hvort tveggja - jakka- og bindisskylda.

Yfirskrift ræðunnar var: Hvernig á að ná árangri í nútímaviðskiptum - Lærdómur af íslensku útrásinni.

Þar rekur hann nokkrar velgengnissögur víkinganna:

Baugur - sem í dag er gjaldþrota

Avion Group - gjaldþrota í dag

Actavis - er til sölu

Össur - er í lagi

Kaupþing - gjaldþrota

Bakkavör - hefur hugsanlega verið bjargað.

Það fer því lítið fyrir velgengni þessara fyrirtækja í dag - en fyrir fjórum árum taldi Ólafur Ragnar að viðskiptakerfi annarra landa ættu að endurskoða hugmyndafræði sína í ljósi velgengni Íslendinganna. Þrettán atriði taldi hann skýra nokkuð einstakan árangur þeirra - þar á meðal sterkt vinnusiðferði, áhættusækni, djörfung og harðfylgni, traust á milli einstaklinga, landkönnuðareðli víkinganna, og mikilvægi orðsporsins. Útrásarvíkingunum væri nefnilega ljóst að árangur þeirra hefðu áhrif á ekki bara eigið orðspor - heldur einnig þjóðarinnar allrar um ókomnar aldir.

Lofgjörð sinni lauk forsetinn síðan með hinum fleygu orðum:

You ain´t seen nothing yet....



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×