Innlent

Týndi hundinum sínum í kerfinu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Hundurinn Mjölnir.
Hundurinn Mjölnir.

Marvin Michelsen, tvítugur Reykvíkingur, hefur undanfarinn mánuð gert örvæntingarfulla leit að hundinum sínum, Mjölni. Ótrúleg atburðarás varð til þess að Mjölnir endaði í höndunum á nýjum eigendum sem Marvin veit ekki hverjir eru.

Þannig er mál með vexti að Marvin þurfti að fara á sjúkrahús og bað vinkonu sína að passa Mjölni fyrir sig á meðan. Það vildi ekki betur til en svo að hundurinn slapp út á meðan vinkonan bar innkaupapoka inn í hús. Marvin telur líklegt að hundurinn hafi farið að leita sín, enda mjög húsbóndahollur.

Mjölni tókst þó ekki ætlunarverkið, heldur var hirtur upp af lögreglunni og vistaður á hundahótelinu að Leirum. Marvin hringdi á hundahótelið og sagðist ekki geta sótt hundinn fyrr en hann útskrifaðist af spítalanum. Í millitíðinni var Mjölnir hins vegar gefinn nýrri fjölskyldu í samræmi við vinnureglur sveitarfélaganna um flökkuhunda og þegar Marvin kom að vitja hans var hundurinn fjarri góðu gamni.

Síðan þá hefur Marvin leitað hans logandi ljósi, en hvorki fengið svör frá Leirum né Reykjavíkurborg um afdrif hvutta. Þegar fréttastofa hafði samband við Leirur fengust þau svör að útilokað væri að breyta orðnum hlut úr þessu eða gefa upp hverjir hinir nýju eigendur eru.

Eins og nærri má geta saknar Marvin félaga síns mikið.

„Ég var að horfa á hundamyndina Bolt um daginn og ég fékk sting í hjartað - yfir teiknimynd! Ég gat ekki annað en hugsað um hundinn minn," segir Marvin í samtali við fréttastofu.

Marvin hefur nú opnað Facebooksíðu undir yfirskriftinni Mjölni skilað þar sem hann biðlar til fólks um að hjálpa sér að finna Mjölni, sem er svartur labrador-boxer blendingur. Alls hafa 4.512 manns skráð sig í hópinn og bætist stöðugt í.
Fleiri fréttir

Sjá meira