Viðskipti innlent

Bankar og lífeyrissjóðir eignast Atorku

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Nýi Landsbankinn, Íslandsbanki og lífeyrissjóðir verða stærstu eigendur fjárfestingafélagsins Atorku nái nauðasamningar fram að ganga. Kröfur í félagið nema um 49 milljörðum króna.

Atorka er alþjóðlegt fjárfestingarfélag og meðal helstu eigna þess eru Promens, áður Sæplast á Dalvík og 41 prósents hlutur í Geysi Green Energy. Stærsti hluthafi félagsins er Þorsteinn Vilhelmsson en hann var áður meðeigandi í Samherja á Akureyri.

Fjárhagsstaða Atorku breyttist til hins verra við bankahrunið í fyrra. Í kjölfarið hófust viðræður við lánardrottna sem leiddu til þess að undirritaður var kyrrstöðusamningur í febrúar.

Það var svo fallist á beiðni félagsins um heimild til að leita nauðasamninga fyrr í vikunni. Forsendur nauðasamningsins gera ráð fyrir að endurheimtuhlutfall kröfuhafa verði a.m.k. 40% en lánadrottnar muni umbreyta kröfum sínum í hlutafé og skuldabréf. Heildarkröfur nema um 49 milljörðum.

Nýi Landsbankinn á langstærstan hluta þeirra eða rúmlega 20 milljarða. Þar á eftir kemur Íslandsbanki með rúma 7 milljarða króna kröfu. Þá eiga nokkrir lífeyrissjóðir kröfur á félagið, þar á meðal LSR, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Gildi. Lánadrottnar munu taka afstöðu til samningsins þann 10. desember en eigendur 65% krafna hafa nú þegar mælt með nauðasamningi.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×