Innlent

Björgunarsveitir kallaðar út vegna sjósundkappa

Valur Grettisson skrifar
Drangeyjarsund.
Drangeyjarsund.

Allar björgunarsveitir í Skagafirði voru kallaðar út á laugardaginn eftir að tilkynning barst til lögreglunnar um að sjósundkappi hefði horfið í miðju Drangeyjarsundi. Þetta kom fram á Feykir.is.

Sjósundkappinn reyndist vera enginn annar en Benedikt Lafleur sem meðal annars spreytti sig á sjósundi í Ermasundinu með mistækum árangri þó.

Það var fylgdarlið Benedikts sem tilkynnti hvarf hans til lögreglunnar á Sauðárkróki. Lögreglan hafði samband við Landsbjörgu sem ræsti út allar björgunarsveitir í Skagafirðinum sem undirbjuggu umfangsmikla leit að sjósundkappanum.

Leitin var síðan afturkölluð fimmtán mínútum síðar en þá fannst Benedikt aftur.

Í viðtali við Feykir.is þá segist Benedikt aldrei hafa upplifað sig eins og hann hefði verið í hættu. Með Benedikti var Sarah-Jane Emily Caird, synti með honum Drangeyjarsundið.

Aðspurður hvað gerðist þennan dag útskýrði Benedikt: „Það sem gerðist var það að Sarah var á undan mér og þeir voru að fylgja henni eftir. Þegar þeir síðan líta aftur eftir mér hafði ég misst sundhetturnar og var því ekki sýnilegur í sjónum. Ég var þarna að synda í miklum straumum og þegar ég lendi í því þá syndi ég mikið í kafi og því er erfiðara að sjá mig í sjónum. Þeir hafa því orðið eitthvað hræddir og kallað út björgunarlið. Ég var hins vegar aldrei í neinni hættu."

Benedikt er gríðarlega reynslumikill sjósundkappi enda reyndi hann að synda Ermasundið þrisvar sinnum. Honum tókst það aldrei. Þá hefur Benedikt einnig reynt að synda Drangeyjarsund áður en hætt við.

Lesa má greinina á Feykir með því að smella hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×