Lífið

Mikil gróska í prjónaskap

Prjónakonur Þær Erla Sigurlaug og Ragnheiður Eiríksdóttir ætla að kenna Íslendingum þá list að prjóna. Erla gefur út bók en Ragnheiður dvd-disk. Sjá má frekari upplýsingar á síðum þeirra, blog.eyjan.is/ragnheidur og prjonaperlur.blogspot.com
Fréttablaðið/Stefán
Prjónakonur Þær Erla Sigurlaug og Ragnheiður Eiríksdóttir ætla að kenna Íslendingum þá list að prjóna. Erla gefur út bók en Ragnheiður dvd-disk. Sjá má frekari upplýsingar á síðum þeirra, blog.eyjan.is/ragnheidur og prjonaperlur.blogspot.com Fréttablaðið/Stefán

Það ríkir mikið prjónaæði á Íslandi um þessar mundir. Til marks um það er komin út ný prjónabók og kennsludiskur fyrir byrjendur og lengra komna.
„Við vildum forvitnast hvað sé að gerast í allri þessari prjónagrósku á Íslandi,“ segir Erla Sigurlaug Sigurðardóttir, sem gefur út bókina Prjónaperlur – prjónað frá grasrótinni, ásamt frænku sinni, Halldóru Skarphéðinsdóttur.

„Halldóra er þaulvön, en ég byrjaði bara í fyrra og þegar ég missti vinnuna fór ég að hugsa um þessa bók. Við Halldóra fórum á stúfana og söfnuðum alls konar uppskriftum frá prjónakonum héðan og þaðan af landinu og einum karli sem við erum mjög stoltar að hafa fundið,“ segir Erla, en í bókinni gefa átján prjónarar uppskriftir sínar auk höfundanna. Ein af þeim er Ragnheiður Eiríksdóttir, en hún er nú að gefa út DVD-diskinn Prjónum saman. Diskurinn er sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi, með prjónakennslu á íslensku.

„Þetta er eitthvað sem hreinlega vantaði í okkar prjónaflóru svo ég ákvað bara að sinna þessu. Mér rann blóðið til skyldunnar,“ segir Ragnheiður og hlær. „Það er til mjög mikið af myndböndum á netinu sem fólk nýtur sér, en það eru alls ekki allir sem treysta sér til að nota leiðbeiningar á ensku,“ segir Ragnheiður, en á disknum fer hún í rúmlega fjörutíu aðferðir í prjóni fyrir byrjendur og lengra komna.

Það er nokkuð ljóst að algjört prjónaæði ríkir á Íslandi um þessar mundir og aðspurðar segja bæði Erla og Ragnheiður það tengjast kreppunni að einhverju leyti. „Sjálf byrjaði ég að prjóna til að sinna sköpunarþörfinni. Ég fann loksins þörfina í gegnum mömmu og Halldóru sem eru báðar mjög vanar. Þetta er bara smitandi og það er rosalega gaman að sjá sína afurð verða til í höndunum. Kannski er það líka einhver tilfinning núna í kreppunni, einhver nægjusemi,“ segir Erla og Ragnheiður tekur í sama streng. „Ég held að það hafi verið komin ákveðin prjónabylgja í gang fyrir hrun og heimskreppuna miklu, en síðan hafi þetta náð miklu meiri útbreiðslu eftir hrun. Fólk er kannski meira að leita inn á við og að einhverri iðju sem er þægileg og skilur eitthvað eftir sig,“ segir Ragnheiður.
alma@frettabladid.is
Fleiri fréttir

Sjá meira