Innlent

Sérstakur ríkissaksóknari vísar frá kæru á hendur blaðamönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Settur ríkissaksóknari hefur vísað frá kæru á hendur sex blaðamönnum fyrir meint brot á lögum um bankaleynd. Um er að ræða blaðamennina Agnesi Bragadóttur og Þorbjörn Þórðarson, blaðamenn á Morgunblaðinu, Kristin Hrafnsson, sem nú starfar á RÚV, Egil Helgason, pistlahöfund á Eyjunni, og Guðmund Magnússon ritstjóra Eyjunnar, auk Inga F. Vilhjálmssonar, blaðamanns á DV.

Í bréfi, sem Björn L. Bergsson settur ríkissaksóknari hefur sent Fjármálaeftirlitinu vegna mála Kristins Hrafnssonar og Agnesar segir að Fjármálaeftirlitið hafi í febrúar komið á framfæri við sérstakan saksóknara ábendingu um hugsanleg brot á bankaleynd.

Sérstakur saksóknari hafi svarað bréfinu og sagt að hann myndi ekki aðhafast í málinu að svo stöddu. Þessa ákvörðun mætti kæra til embættis ríkissaksóknara innan mánaðar. Ríkissaksóknari hafi upplýst síðar að ákvörðunin hafi ekki verið kærð til embættisins innan þessa frests.

Þá segir Björn í bréfinu til Fjármálaeftirlitsins að engin ný gögn í skilningi sakamálalaga eða nýjar upplýsingar hafi fylgt kæru Fjármálaeftirlitsins á hendur blaðamönnunum. Því sé ekki tilefni til endurupptöku málsins. Kærunni sé því vísað frá.

Málunum gegn blaðamönnum Eyjunnar og DV var hins vegar vísað frá á þeirri forsendu að ekki hefði verið um brot á bankaleynd að ræða.

„Þetta kveikir vonarglætu hjá manni um að það sé einhversskonar skynsemi i þessari starfsemi við uppgjör bankahrunsins. En mér þykir það sérstakur minnisvarði fyrir komandi kynslóðir að fyrsta afgreiðslumál embættis sérstaks saksóknara í febrúar og sérstaks ríkissaksóknara í dag hafi verið eineltismál Fjármálaeftirlitsins í garð blaðamanna," segir Kristinn Hrafnsson vegna málsins.

Kristinn segir að málið hafi allt saman verið tóm hringavitleysa frá upphafi þar sem ekki hafi staðið steinn yfir steini í málsmeðferð og framgangi Fjarmálaeftirlitsins. „Nú þegar Björn Bergsson slær hraustlega á puttana á Fjármáleeftirlitnu þá hefur maður ágætar væntingar til þess embættis að það sjái af sér og láti af þessum fíflagangi," segir Kristinn.













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×