Lífið

Grínhátíð haldin fyrir jólin

Helga Braga Jónsdóttir kemur fram á grínhátíðinni sem verður haldin dagana 15. til 19. desember.
Helga Braga Jónsdóttir kemur fram á grínhátíðinni sem verður haldin dagana 15. til 19. desember.

Grínhátíð verður haldin í Reykjavík, Akranesi og á Selfossi dagana 15. til 19. desember. Þar kemur fram hópur af grínistum úr University of Southampton Comedy Society frá Englandi, Helga Braga Jónsdóttir, Rökkvi Vésteinsson, Svavar Knútur Kristinsson og spunaleikarar úr Leiktu betur-keppnunum.

„Það var búið að plana þetta í svolítinn tíma að þessi bresku myndu koma hingað. Eftir að hin grínhátíðin féll niður, Reykjavík Comedy Festival, lá það vel við höggi að halda þessa í staðinn,“ segir skipuleggjandinn Rökkvi. „Ég bókaði aðeins fleiri atburði og hafði líka grín á íslensku með Helgu Brögu, mér og Svavari Knúti,“ segir hann. Sá síðastnefndi mun bregða á létta strengi með gítarinn að vopni.

Rökkvi segir það vel við hæfi að halda grínhátíð á Íslandi rétt fyrir jólin. „Þetta er fínt til að losa aðeins um jólastressið. Svo er þetta líka svo ódýrt. Það er engin sýning dýrari en þúsund kall. Þetta er skemmtilegt og eitthvað sem fólk hefur efni á,“ segir hann og bætir við: „Þau frá University Southampton Comedy Society verða með spuna og sketsagrín. Það hefur lítið verið gert af svoleiðis á Íslandi.“

Grínhátíðin verður haldin á Batteríinu, í Rauðakrosshúsinu og á Kaffi Cultura í Reykjavík, Gamla Kaupfélaginu á Akranesi og á 800 Bar á Selfossi. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×