Innlent

Persónuvernd veiti leyfi

Gagnagrunnur Jóns Jósefs Bjarnasonar sýndi að feðgarnir Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson voru tengdir á 809 vegu í íslensku viðskiptalífi.
Gagnagrunnur Jóns Jósefs Bjarnasonar sýndi að feðgarnir Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson voru tengdir á 809 vegu í íslensku viðskiptalífi.

Ríkisskattstjóri segir að mistök hafi valdið því að Jón Jósef Bjarnason tölvunarfræðingur fékk aðgang að fyrirtækjaskrá til þess að búa til gagnagrunn með myndrænum upplýsingum um tengsl manna í viðskiptalífinu. Persónuvernd hefur málið nú til meðferðar.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að vaninn sé að skoða mál af þessu tagi vandlega og bera þurfi þau undir Persónuvernd. Umsókn Jóns Jósefs, sem er fyrrverandi starfsmaður Ríkisskattstjóra, fór ekki í gegnum hefðbundið ferli hjá embættinu.

Jón Jósef Bjarnason sagði við Fréttablaðið að hann hefði gert samning við embætti Ríkisskattstjóra í byrjun september og greitt 180.000 króna leyfisgjald. „Þeir gáfu mér aðgang og ég taldi að við hefðum sama skilning á að það væri tilkynningarskylt til Persónuverndar en ekki leyfisskylt,“ sagði hann og sagði að sér þætti það dónaskapur að hann hefði ekki verið látinn vita áður en vefþjónustunni var lokað strax eftir að fréttir birtust í fjölmiðlum með upplýsingum úr gagnagrunninum um tengsl viðskiptajöfra. Hann bíður nú niðurstöðu frá Persónuvernd.

Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar, sagði að umsókn vegna málsins hefði borist 3. september. Afstaða lægi ekki fyrir til þess hvort Jón Jósef þyrfti starfsleyfi. Lánstraust og fleiri aðilar sem miðla upplýsingum úr viðskiptalífinu hafa þurft starfsleyfi frá Persónuvernd. Gagnagrunnur Jóns Jósefs er nýkominn til sögunnar en Fjármálaeftirlitið hefur þó keypt aðgang að honum til afnota á innra neti sínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×