Innlent

Markvörður ákærður fyrir rán

hættur í fótbolta Ólafur hætti knattspyrnuiðkun fyrir fjórum árum.
hættur í fótbolta Ólafur hætti knattspyrnuiðkun fyrir fjórum árum.
Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Ólafi Gottskálkssyni, fyrrverandi landsliðsmarkverði í knattspyrnu. Ólafur er ákærður fyrir húsbrot og rán í félagi við annan yngri mann.

Ólafi og meðákærða er gefið að sök að hafa ruðst inn til manns við Sólvallagötu í Reykjanesbæ snemma að morgni 8. febrúar síðastliðins, beitt manninn sem þar bjó ofbeldi og rænt hann verðmætum, meðal annars tölvu.

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness síðar í þessum mánuði.

Ólafur Gottskálksson lék knattspyrnu í sautján ár, bæði á Íslandi og á Bretlandseyjum. Hann hóf ferilinn hjá ÍA árið 1988, fór þaðan til KR og lék síðan bæði með Keflvíkingum og Grindvíkingum. Hann á að baki 188 leiki í efstu deild á Íslandi.

Þá lék hann með Hibernian í Skotlandi, og Brentford, Margate og Torquay á Englandi. Ólafur var valinn í íslenska landsliðið níu sinnum á árunum 1991 til 1997, og var fimm sinnum í byrjunarliðinu.

Ólafur hætti að spila knattspyrnu eftir hann skrópaði í lyfjaprófi hjá Torquay í janúar 2005 og lét sig hverfa af æfingasvæðinu. Enska knattspyrnusambandið úrskurðaði hann í kjölfarið í ævilangt bann. - sh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×