Innlent

Björgólfar vilja að Kaupþing afskrifi þrjá milljarða

Björgólfur Guðmundsson og Björg­ólfur Thor Björgólfsson hafa gert Nýja Kaupþingi tilboð um að greiða fjörutíu til fimmtíu prósent af tæplega sex milljarða skuld þeirra feðga við bankann, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þeir feðgar vilja borga 500 milljónir af skuld sinni á þessu ári. Skuldin er upphaflega tilkomin vegna kaupa eignarhaldsfélags þeirra, Samsonar, á 45,8 prósenta hlut ríkisins í Landsbankanum árið 2003.

Krafa Kaupþings á hendur Samson er 4,9 milljarðar króna án dráttarvaxta en kröfulýsingin í þrotabú Samsonar er um 5,9 milljarðar með dráttarvöxtum og öðrum áföllnum kostnaði, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Eins og blaðið greindi frá 9. apríl síðastliðinn sögðu heimildir blaðsins að Nýja Kaupþing hefði stefnt þeim feðgum í mars vegna skuldar­innar. Hins vegar barst stefnan þeim feðgum ekki, og er óútskýrt hvers vegna. Feðgarnir eru í persónulegum ábyrgðum vegna skuldarinnar og standi annar þeirra ekki undir ábyrgð fellur hún á hinn. Kaupverð á hlut ríkisins í Landsbankanum árið 2002 var 11,2 milljarðar króna.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, getur ekki staðfest að málið sé vaxið með þessum hætti. „Það eina sem ég vil staðfesta er að það hafa verið viðræður í gangi um hvernig þeir myndu ljúka þessari skuld." Í sama streng tekur Hulda Dóra Styrmisdóttir, stjórnarformaður bankans. Hún vill ekki svara því hvort henni finnist líklegt að tilboði sem þessu yrði tekið af hálfu stjórnar, en stjórnin þarf að taka ákvörðun um svo stórfellda niðurfellingu skuldar þegar upp er staðið.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er tilboð þeirra feðga talið raunhæft innan Kaupþings, og reiknað með að það verði lagt fyrir stjórn bankans.

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfsfeðga, vildi ekki tjá sig um málið þegar til hans var leitað í gær.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×