Erlent

Plataði fjölmiðla með færslu á Wikipedia

Óli Tynes skrifar

Írskur námsmaður falsaði tilvitnun í franskt tónskáld á vefsíðunni Wikipedia til þess að sýna framá að það geti verið varasamt að treysta upplýsingum á netinu. Fjölmargir virtir fjölmiðlar notuðu tilvitnunina.

„Þegar ég dey mun síðasti valsinn hljóma í huga mér", er haft eftir franska tónskáldinu Maurice Jarre sem lést í mars síðastliðnum. Hann hlaut meðal annars Óskarsverðlaun fyrir tónsmíðar sínar. Nú hefur komið í ljós að Jarre lét þessi orð aldrei falla. Höfundur þeirra er Shane Fitzgerald, 22 ára námsmaður í Dublin.

Hann setti þau inn á alfræðisíðuna Wikipedia sem er ritstýrt af netnotendum sjálfum. Í þeim tilgangi að sýna framá að það geti verið varasamt að treysta upplýsingum á netinu. Í bréfi til blaðsins Irish Times segir Fitzgerald að hann hafi búist við því að bloggarar og kannski minni fjölmiðlar notuðu þessa fölsuðu tilvitnun.

Raunin hafi hinsvegar orðið sú að stór og virt blöð um allan heim hafi tekið hana upp. Meðal þeirra var breska blaðið Guardian. Guardian leiðrétti sig með þeim orðum að mórallinn í þessari sögu væri ekki sá að blaðamenn eigi að forðast Wikipedia. Heldur eigi þeir ekki að nota upplýsingar þaðan ef ekki sé hægt að rekja þær til áreiðanlegrar heimildar.Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.