Viðskipti innlent

Milljarðalán bræðra fjármagnaði fasteignir og einkaflugvél

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Bakkavararbræður.
Bakkavararbræður.
Lýður Guðmundsson, annar Bakkavararbræðra, tók lán hjá Kaupþingi í Lúxemborg upp á 12,75 milljónir punda, um 2,6 milljarða króna, til að fjármagna húsakaup sín í London. Lýður er í persónulegri ábyrgð fyrir láninu.

Þetta kemur fram í leyniglærum um lántaka Kaupþings, sem birtust á lekasíðunni WikiLeaks í gær. Forsvarsmenn Kaupþings hafa reynt hvað þeir geta til að fá glærurnar fjarlægðar af vefnum og segja birtingu þeirra stangast á við lög um bankaleynd.

Í yfirlitinu kemur jafnframt fram að bræðurnir hafi í gegnum félag sitt, Bakkabrædur Group, tekið lán til kaupa á einkaflugvél á 23 milljónir dollara, um 2,9 milljarða króna. Bankinn á forgangsveð á flugvélinni.

Þá tók Ágúst Guðmundsson lán, meðal annars til fasteignauppbygginga í Frakklandi, upp á 8,9 milljónir evra, um 1,6 milljarð króna, en þegar glærurnar voru kynntar stóð til að taka veð í húseignunum.

Alls fengu tíu félög tengd Bakkavararbræðrum lán hjá Kaupþingi sem svöruðu 332,7 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.

Stærsta lánið á listanum er til Exista upp á rúma hundrað fjörutíu og þrjá milljarða króna en fram kemur í glærunum að einungis einn áttundi þess sé tryggður.

Eignarhald Bakkabræðra á Kaupþingi var í gegnum Exista sem var stærsti eigandi bankans með 21 prósenta hlut.

Nánar verður fjallað um lánayfirlit Kaupþings í kvöldfréttum Stöðvar tvö klukkan hálf sjö.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×