Innlent

Landsvirkjun greiddi sveitarstjórnarmönnum fyrir skipulagsvinnu

Ingimar Karl Helgason skrifar

Landsvirkjun greiddi fyrir fundarsetu sveitarstjórnarmanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, um fyrirhugaðar virkjanir í hreppnum. Hver sveitarstjórnarmaður fékk 200 þúsund krónur, segir fyrrverandi sveitarstjóri. Oddviti hreppsins staðfestir að hafa fengið greiðslur frá Landsvirkjun, í gegnum hreppinn, en er ósáttur við að vera sakaður um mútuþægni.

Landsvirkjun hefur í hyggju að smíða þrjár virkjanir í Neðri Þjórsá. Tvær þeirra, Hvamms- og Holtavirkjun, eiga að vera í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þetta þarf að setja á skipulag, sem sveitarstjórnin hefur nú samþykkt. Málið er nú í höndum umhverfisráðherra. Virkjanirnar hafa verið mjög umdeildar í hreppnum, svo sem annars staðar á Suðurlandi.

Sigurðar Jónssonar, fyrrverandi sveitarstjóra í hreppnum segir sveitarstjórnarmenn hafa þegið greiðslur frá Landsvirkjun fyrir óbókaða fundi.

Hann segir að fimm sveitarstjórnarmenn hafi fengið 200 þúsund krónur hver fyrir að sitja tíu fundi. „Landsvirkjun greiddi þennan kostnað, já," sagði Sigurður í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2.

Sigurður segir að hreppurinn hafi fengið meira frá Landsvirkjun, í allt 11 milljónir króna. Þar á meðal lögfræðikostnað. Fjölmargar athugasemdir bárust vegna fyrirhugaðra virkjana. Lögfræðikostnaðurinn einn og sér hafi numið um fimm milljónum króna, segir Sigurður.

Hann segist aðspurður ekki vilja nota orðið mútur, en segir á að hreppurinn hafi orðið við beiðni Landsvirkjunar.

Gunnar Örn Marteinsson, oddviti Skeiða og Gnúpverjahrepps, sagði í samtali við fréttastofu að Sveitarstjórnarmenn hefðu fengið greitt fyrir vinnufundi. Landsvirkjun hafi greitt hreppnum, sem svo hafi greitt sveitarstjórnarmönnum. Landsvirkjun hafi síðan verið sendur reikningur fyrir fundunum. Sigurður ætti að vita þetta því hann hafi gert reikningana. Gunnar Örn sagði jafnframt að sér þætti ósanngjarnt að vera nánast sakaður um mútur.

Við þetta er því að bæta að Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, hefur ekki svarað skilaboðum fréttastofu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.