Innlent

Ástráður gefur tíu þúsund smokka í ágúst

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Það verður lítið um slysabörn á Gay Pride ef Ástráður fær einhverju um ráðið, hvað þá um Verslunarmannahelgina og Menningarnótt.
Það verður lítið um slysabörn á Gay Pride ef Ástráður fær einhverju um ráðið, hvað þá um Verslunarmannahelgina og Menningarnótt. Mynd/Valli
Þeir sem stigu um borð í Herjólf í dag fengu óvæntan glaðning þegar læknanemar færðu þeim smokka að gjöf inn í helgina að sögn Júlíusar Kristjánssonar, formanns verkefnisins Ástráðs.

Ástráður, sem er forvarnastarf læknanema, kemur til með að dreifa tíu þúsund smokkum á þremur stórhátíðum í ágústmánuði ókeypis.

Fyrst ber að nefna Verslunarmannahelgina, þar sem Ástráður verður með smokka í Vestmannaeyjum, á Ísafirði, á Akureyri og í Reykjavík. Þá verður smokkum einnig dreift á Gay-Pride hátíðinni um næstu helgi og Menningarnótt í Reykjavík síðar í mánuðinum.

Læknanemar munu sjá um dreifinguna í sjálfboðavinnu og leggja þannig sitt á vogarskálarnar til að gera þessar þrjár gleðihelgar áfallalausar og skemmtilegri fyrir alla.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Halldór Jónsson ehf., innflytjanda Durex á Íslandi og hefur verið starfrækt síðustu ár.

„Á meðan Durex eru fúsir að gefa okkur þetta, þá erum við fús til að gefa vinnu okkar til að reyna að halda fólki heilbrigðu og koma í veg fyrir óþarfa kostnað fyrir ríkið og fólkið sjálft með óléttu unglingsstúlkna, fóstureyðingum og þess háttar," segir Júlíus, en fólk er að hans sögn mjög fegið smokkagjöfinni.

Markmið Ástráðs með verkefninu er að efla forvarnir og umræðu, draga úr kynsjúkdómasmitum, kynferðisofbeldi og ótímabærum þungunum, en læknanemarnir fara einnig í skóla með forvarnastarf á haustin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×