Innlent

Umferðastofa varar við lestarstjórum og lausamunum

Umferðarstofa leggur áherslu á öryggi ökumanna yfir verslunarmannahelgina og árétta að þeir sem leggi í ferðalag með hýbíli á hjólum athugi tímanlega að allt í sé í lagi.

Umferðarstofa varar ökumenn við að lenda í hlutverki lestarstjórans. Þeir segja að ef ökumaður þarf að fara hægar en leyfður hámarkshraði segir til um þá sé mikilvægt að hann hagi akstri þannig að sem auðveldast sé fyrir aðra bíla að komast fram úr. Ekki verða lestarstjóri að óþörfu.

Umferðarstofan varar við lausamunum í bílum. Fartölva, myndavél og fleira getur við árekstur flogið af stað og þegar það lendir á fyrirstöðu verður höggþungi þess margföld vigt hlutarins. Fyrirstaðan getur verið höfuð ökumannsins sem vitanlega þolir ekki höggið.

Árið 2007 varð banaslys hér á landi þar sem þungur farangur kastaðist til við árekstur og aflagaði sætisbak farþega, sem lést. Það er nánast undantekningarlaust hægt að koma í veg fyrir þessi slys með því að setja allt sem að er lauslegt í farangursgeymslu eða skorða það þannig að ekki sé hætta á að það kastist til við árekstur.

Oft skapist mikil hætta þar sem ökumenn fólksbifreiða sem eru með stór hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna í eftirdragi víki ekki nægjanlega vel fyrir umferð sem kemur úr gagnstæðri átt á mjóum vegum. Mikilvægt er að menn sýni tillitssemi við mætingar og hafi í huga hver breidd eftirvagnsins er.

Á heimasíðu Umferðarstofu http://us.is/ má finna undir „fræðslumyndbönd" fjöldann allan af ganglegum upplýsingum sem tryggt geta örugga heimkomu.
Fleiri fréttir

Sjá meira