Innlent

Vörubílstjórar hitta þingmenn við Austurvöll

„Við vorum að tala við hann Grétar Mar þingmann. Hann sagði okkur bara að halda áfram og berjast þar til eitthvað verður gert," segir Páll Pálsson vörubílstjóri sem staddur er niður á Austurvelli en þar mótmæla jeppaeigendur og vörubílstjórar nú.

Hópurinn safnaðist í Klettagörðum fyrr í dag og segir Páll að um 200-300 bílar séu í röðinni sem nær að Alþingishúsinu.

6 jeppar eru fyrir utan Alþingi og afhenti forsprakki hópsins Sturla Jónsson nafna sínum Böðvarssyni forseta Alþingis undirskriftarlista um lækkun eldsneytisálaga fyrir stundu. Nokkrir þingmenn hafa gefið sig á tal við hópinn.

Páll segir hópinn hafa farið niður eftir í fylgd lögreglu og hann ítrekar að það verði ekkert stoppað fyrr en eitthvað verður gert.

Jeppaeigandi og eldsneytisgreiðandi hafði samband við Vísi og var hann staddur í röðinni. Hann segir lögreglu hafa beðið hann um að færa sig svo Strætó kæmist framhjá. Hann sagði nú lítið varið í þetta ef engar raskanir yrðuá samgöngum. Þá var honum hótað handtöku og færði bílinn í kjölfarið.

„Ég er samt ennþá í röðinni og ætla hvergi. Það er kominn tími til þess að eini strútagarður á Íslandi, Alþingi, taki hausinn upp úr sandinum og geri það sem kjósendur biðja um," sagði jeppaeigandinn ósáttur.

Frést hefur af mótmælu víða um land og segist Páll hafa heyrt af mótmælum á Akureyri, Egilsstöðum og á Hornafirði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×