Innlent

Ingibjörg: Óheillaspor fyrir borgarbúa

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.

Ráðherrum ríkisstjórnarinnar líst misvel á nýjan meirihluta í Reykjavík. Að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun gáfu nokkur þeirra færi á sér og svöruðu spurningum blaðamanna. Önnur vildu ekki tjá sig. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar segir að sér lítist illa á breytingarnar en Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að sér lítist vel á gjörninginn.

„Þetta er óstarfhæfur meirihluti að mínu mati og mikið óheillaspor fyrir borgarbúa," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. „Mér finnst ótrúlegt að sjá hvað menn leggjast lágt til að seilast eftir völdum." Aðspurð hvort þetta hefði áhrif á stjórnarsamstarfið segir hún svo ekki vera.

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, tekur í svipaðan streng og Ingibjörg. Henni líst illa á breytingarnar í borginni og spáir því að meirihlutinn lifi ekki út kjörtímabilið. „Dagur verður orðinn borgarstjóri á ný fyrir lok kjörtímabilsins. Þetta setur pólitíkina á mjög lágt plan að mínu mati en atburðir gærdagsins hafa hins vegar engin áhrif á stjórnarsamstarfið.

Einar K. Guðfinnson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir þvert á móti að honum lítist vel á nýja borgarstjórann Ólaf F. Magnússon. Hann er þó sammála þeim Ingibjörgu og Jóhönnu um það að þessi þróun hafi engin áhrif á stjórnarsamstarfið. „Það hvarflar ekki að mér," segir Einar.

 

Umvherfisráðherrann, Þórunn Sveinbjarnardóttir er hins vegar sammála stallsystrum sínum og segir að sér hugnist breytingarnar í borginni illa.

Þau Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og Kristján L. Möller vildu ekki tjá sig um málið. Geir Haarde fjármálaráðherra var farinn af fundinum áður en blaðamenn fengu tækifæri til að spyrja hann álits.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×