Innlent

„Ólafi F. Magnússyni er ekki treystandi“

Breki Logason skrifar
Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson

„Ég er nokkuð viss um að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki búinn að bíta úr nálinni með að binda sitt trúss við Ólaf F. Magnússon sem hefur sýnt það í verki að það er ekki einu orði að treysta því sem hann segir pólitískum samstarfsmönnum sínum," segir Össur Skarphéðinsson ráðherra Samfylkingarinnar sem staddur var í Abu Dabí þegar Vísir náði á hann fyrir stundu.

Össur sagði einnig að Ólafur F. hefði lýst því yfir nokkuð borginmannlegur að það hefði verið hann sem átti frumkvæðið að myndun nýs vinstri meirihluta í borginni. „Það gerði hann með því að hringja í Dag B Eggertsson og hvatti hann til þess að mynda þann meirihluta. Nú hefur Dagur upplýst í fjölmiðlum að Ólafur hafi fram á síðustu stundu fullyrt að hann stæði heilshugar við sín fyrri orð. Það reyndist hreinn uppspuni svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Af þessu tvennu má álykta að Ólafi F. Magnússyni er ekki hægt að treysta í samstarfi," sagði Össur.

Aðspurður hvort þessi tíðindi hafi einhver áhrif á ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sagði Össur. „Þetta hefur engin áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Þar standa öll orð og þar er enginn Ólafur F. Magnússon heldur fólk sem hægt er að treysta."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×