Innlent

Ólafur og Vilhjálmur ræddu myndun nýs borgarstjórnarmeirihluta

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans.
Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans.

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F listans, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, funduðu um helgina um myndun mögulegs nýs borgarstjórnarmeirihluta. Ekki er vitað hversu langt viðræðurnar eru komnar eða hvort myndun nýs meirihluta verði að veruleika á næstu dögum. Samkvæmt heimildarmönnum Vísis eru þreifingar milli F-lista og Sjálfstæðisflokks ekki raktar til deilu milli þeirra Björns Inga Hrafnssonar og Guðjóns Ólafs Jónssonar, í Framsóknarflokknum, sem greint var frá um helgina.

Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur var myndaður af Samfylkingu, VG, Framsóknarflokknum og F-lista í mikilli skyndingu í byrjun október á síðasta ári þegar samstarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sprakk vegna REI-málsins svokallaða. Myndun nýja meirihlutans var hraðað svo mjög að ekki tókst að gera málefnasamning. Hefur hann enn ekki verið búinn til.

Þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon áttu í meirihlutaviðræðum strax eftir síðustu kosningar en þær viðræður runnu út í sandinn vegna deilna um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Hvorki náðist í Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson né Ólaf F. Magnússon við vinnslu þessarar fréttar. Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi F-listans, sagðist hafa rætt við Ólaf í morgun en þetta mál hefði ekki borið á góma í þeirra samtali.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×