Skoðun
Ingvar Gíslason

Óforsjálni og heimskreppa

Allt ferli á sér upphaf og endalok. Þannig er mannsævin ferli sem byrjar í vöggu og endar í gröf. Svo fer oft um tiltektir manna, áform og athafnir að allt sýnist blómstra um hríð, en missir smám saman þróttinn og endar með því að detta út af rólega eða steypast fyrir björg með ósköpum.
Sú margumtalaða „útrás" íslenskra fésýslumanna er ferli af þessu klassiska dæmi. Spurja má hvar vagga þessa tiltækis stóð, en endalokunum er auðvelt að finna stað.

Að mörgu leyti finnst mér rétt að miða upphafið við málflutning samtaka iðnrekenda haustið 1987, þegar talsmenn þeirra gerðu kröfu til þess að Íslendingar sæktu um aðild að Evrópubandalaginu og opnuðu þeim aðgang til þess að flytja fé sitt út á evrópskan fjármálamarkað. En fé sínu höfðu iðnrekendur safnað upp á haftatímum og urðu margir vel fjáðir. Þessi krafa íslenskra auðmanna var uppfyllt með samningi um e.k. aukaaðild að Evrópusambandinu 1993 og kallað "Evrópska efnahagssvæðið", EES. Allt átti þetta að verða íslenskri þjóð til efnalegrar farsældar og frægðar í útlöndum, en hefur nú endað í gengisfalli, fjármálakreppu, bankahruni, ofurháum ríkisábyrgðum, sárum áhyggjum og kvíða fólks heima fyrir, en vantrausti og háði erlendis.

En nú vendi ég kvæði mínu í kross. Þegar öllu er á botninn hvolft eru Íslendingar hvorki hlálegri né ærulausari en ýmsar aðrar þjóðir, sem hrjáðar eru af kreppu og bankahruni. Útrásar- og útþenslukapitalismi heimsbyggðarinnar, knúinn af girndum og fégræðgi, er vitaskuld fyrirmynd íslenskra hugmyndasmiða um nýtískulegt íslenskt hagkerfi. Íslenskir stjórnmálamenn, fésýslumenn og allt eins talsmenn launþegasamtaka eru hugfangnir af afrekum heimskapitalismans. Skýrast kemur þessi tröllatrú á auðvaldið fram í ákefð ýmissa stjórnmálamanna (úr öllum stjórnmálaflokkum að kalla) og forustumanna atvinnurekenda og launþega að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Aukaaðildin (EES) nægir þeim ekki. Þessir menn eru blindir á þá staðreynd að Evrópusambandið er bandaríkjasamsteypa og krefst fullveldisafsals aðildarríkjanna því nánari sem tengslin eru.

En eftir hverju eru menn að sækjast?
Kapitalismi Evrópusambandsins og Bandaríkja Norður-Ameríku rorrar á óstyrkum grunni. Þar hrynja gamlir og grónir bankar og virtar fjármálastofnanir. Kreppan breiðist út um allan heim. Enginn heimshluti er ósnortinn af kreppunni. Og færa má til sanns vegar að hrun íslensku bankanna er í fullu samræmi við heimskreppuna. Íslenska útrásin, sem ætlaði að efla sig og lifa um eilífð í faðmlögum við heimskapitalismann varð fyrir þeirri tragisku raun að falla fyrir skollanum Hubris, hrokanum í sínum eigin hug.

Ég fæ að vísu ekki séð að byggingameisturum skýjaborganna verði refsað að hegningarlögum. En þeir mættu fá sinn dóm í lýðræðislegum kosningum, þar sem því verður við komið.

Höfundur er fyrrverandi ráðherra.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.