Lífið

Stefán Karl tryllti Boston-aðdáendur

Með goðsögninni Heinsohn. Stefán heilsaði upp á Tommy Heinsohn, sem er goðsögn í Boston og var í gullaldarliði liðsins á árunum 1959 til 1966.
Með goðsögninni Heinsohn. Stefán heilsaði upp á Tommy Heinsohn, sem er goðsögn í Boston og var í gullaldarliði liðsins á árunum 1959 til 1966. Fréttablaðið/Ap
„Þetta var ótrúlega skemmtilegt, ég fékk að hitta bæði liðin og spjallaði aðeins við fyrirliðann Paul Pierce,“ segir Stefán Karl Stefánsson leikari. Velgengni hans sem Trölli virðist engan endi ætla að taka en leikarinn var sérstakur heiðursgestur á leik Boston Celtics og Utah Jazz á mánudaginn í Banknorth Garden, heimavelli Boston.

Stefán atti kappi við lukkutröll liðsins sem hefur í fimm ár reynt að hitta ofan í körfuna fyrir aftan bak frá miðju. Stefán gerði sér lítið fyrir og hitti í fyrstu tilraun. „Þakið ætlaði bókstaflega að rifna af byggingunni,“ segir Stefán en Banknorth Garden tekur 35 þúsund manns í sæti.

Stefán hafði sitthvað upp úr krafsinu. Fékk meðal annars áritaða treyju frá Pierce og var einmitt að horfa á hana þegar Fréttablaðið náði tali af honum.

Þá varð hann þess heiðurs aðnjótandi að máta meistarahring sem meistarar NBA-deildarinnnar fá fyrir sigur sinn. „Hann var ansi þungur, skreyttur með demöntum og gimsteinum,“ segir Stefán. Hann verður í tvær vikur til viðbótar í Boston en síðan liggur leiðin til Los Angeles. Og þótt Stefán vilji ekki meina að framtíðin liggi í lukkutrölla-bransanum þá neitar hann því ekki að óneitanlega yrði skemmtilegt að endurtaka leikinn hjá Los Angeles Lakers en stórleikarinn Jack Nicholson er einn heitasti aðdáandi liðsins.

„Það væri ekkert leiðinlegt að rekast á hann,“ segir Stefán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×