Innlent

Bjórsalar herja á ungmenni höfuðborgarinnar

Aron Örn Þórarinsson skrifar
Mynd/Haraldur Jónasson

Svokallaðir bjórsalar hafa komið í stað landasala í því að sjá ungmennum höfuðborgarinnar fyrir áfengi. Bjórsalar eru ungt fólk með aldur til að kaupa áfengi í vínbúðum, sem selja bjór til ungmenna með umtalsverðri álagningu. Sem dæmi má nefna að kippa af Viking Lager kostar 2500 krónur hjá bjórsala, en 990 krónur í vínbúð. Þetta er rúmlega 150% hækkun.

Pétur Guðmundsson, starfandi aðalvarðstjóri lögreglunnar í Reykjavík, segir að sala á landa hafi verið lítið áberandi upp á síðkastið. „Þegar lögreglan hefur afskipti af ungmennum vegna ölvunar eftir skólaböll er sjaldgæft að landi sé í fórum þeirra. Flestir eru með bjór eða Breezer," sagði Pétur.

Samkvæmt ungum manni sem ekki vill láta nafns síns getið ganga símanúmer bjórsala á milli ungmenna. Nær undantekningarlaust koma bjórsalarnir með bjórinn hvert sem er innan 20-30 mínútna, eftir að í þá er hringt.
Fleiri fréttir

Sjá meira