Innlent

Kirkjan ekki golfvöllur heldur íslenskur úthagi

Frá setningu Prestastefnu í gær.
Frá setningu Prestastefnu í gær.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í yfirlitsræðu sinni á Prestastefnu, sem nú fer fram á Húsavík, að álit kenningarnefndar um staðfesta samvist fyrir samkynhneigða væri málamiðlun innan Þjóðkirkjunnar þótt ýmsum þætti of langt gengið en öðrum of stutt.

Karl fjallaði um álit kenningarnefndar um staðfesta samvist en það verður til umfjöllunar á Prestastefnunni ásamt drögum að formi um blessun staðfestrar samvistar fyrir samkynhneigða. Biskup sagði enn fremur að kirkjunnar hefð gerði ráð fyrir að mál væru leyst með samstöðu og að þá hefði skyldu menn ekki rjúfa nú, en hópur presta vill að lögum verði breytt þannig að prestar fái leyfi til að gefa samkynhneigð pör saman.

Biskup sagði enn fremur í ræðu sinni að umtalsverðum tíma hefði verið varið í málefni samkynhneigðra innan kirkjunnar. Sagði hann varfærni sem sumir kölluðu hik vera merki um ábyrgðarkennd kirkjunnar.

Benti biskup enn fremur á að ef álit kenningarnefndar um heimild fyrir presta til að blessa staðfesta samvist samkynhneigðra yrði samþykkt á Prestastefnunni myndi íslenska Þjóðkirkjan skipa sér í hóp þeirra kirkna sem gengið hefðu hvað lengst í þessum málum.

Karl benti enn fremur á að kirkjan þyrfti að þola skoðanaskipti og andstæð sjónarmið. Hún þyrfti að forðast að steypa allt í sama mót. „Kirkjan er ekki golfvöllur þar sem aðeins er rými fyrir eina grastegund sem klippt er í sömu hæð. Nei, hún er frekar eins og íslenskur úthagi, lyngmói, þar sem fjölbreytt líf þrífst og saman vaxa snarrótarpuntur og holtasóley. Gleðjumst yfir þeirri margbreytni, góðu systkin," sagði biskup.

 

Í máli biskups kom einnig fram fram að frá því að dr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir hefði fyrst kvenna tekið prestvígslu fyrir rúmum þrjátíu árum hefðu ríflega 60 konur gengið sömuleið, þar af 34 sem sóknarprestar og tvær hafa vígst til fríkirkjusafnaða. Innan Þjóðkirkjunnar væru nú starfandi 48 konur sem prestar í sóknum eða sérþjónustu. Þá hefðu alls 32 konur vígst sem djáknar.

Enn fremur segir í tilkynningu frá Biskupsstofu að á þeim tíma sem liðinn er frá því að Karl Sigurbjörnsson tók við embætti biskups árið 1998 hafi 50 prestar og 25 djáknar tekið vígslu. Kynjahlutfall prestanna er hnífjafnt, en sömu sögu er ekki að segja af djáknunum 25. Í þeirra hópi eru aðeins tveir karlar.

 

Alls sækja rúmlega 140 manns prestastefnu að þessu sinni, þar af um 130 starfandi prestar og djáknar. Henni lýkur á morgun.
Fleiri fréttir

Sjá meira