Innlent

Meiningarlausar spurningar saksóknara

Deilt var á Sigurð Tómas Magnússon settan saksóknara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að fylgja ekki eftir áætlun um yfirheyrslu vitna í Baugsmálinu. Jakob Möller lögmaður Tryggva Jónssonar sagði um mikil afglöp að ræða hjá settum saksóknara og að menn þyrftu að sitja undir; "sumpart meiningarlausum spurningum."

Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Jakob bentu á að áætlunin væri gengin verulega úr skorðum.

Arngrímur Ísberg dómari sagði óskandi að málið gengi hraðar fyrir sig. Hann ítrekaði að spurningar mættu vera markvissari hjá saksóknara.

Fram kom í máli Sigurðar Tómasar að hann teldi að það tæki allt að tvo daga, daginn í dag og morgundaginn, að klára yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri, en ákveðið hefur verið að Jón Ásgeir komi fyrir dóminn eftir hádegi á morgun. Yfirheyrslum yfir honum átti að ljúka á hádegi í dag. Þeim verður haldið áfram eftir hádegi og lýkur líklega eftir hádegi á morgun. Dómari sagðist vona að það myndi standa en saksóknari sagðist engu geta lofað um það.

Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs sagðist aldrei hafa kynnst því áður á 30 ára ferli sínum sem lögfræðingur að áætlanir hafi farið svo mikið úr skorðum. Ákæruvaldið hafi þegar notað meiri tíma í yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri en gefið hafði verið út. Sigurður Tómas benti á að gert væri ráð fyrir að minni tími færi í yfirheyrslur yfir Tryggva Jónssyni en áætlað hafði verið og þar myndi tíminn jafnast út.

Gestur spurði skjólstæðing sinn út í ákæruliði 10-13 sem snúa að meintum bókhaldsbrotum tengum Baugi.

Sigurður Tómas tók þá við að yfirheyra Jón Ásgeir um 14. lið ákærunnar sem jafnframt snýr að rangfærslum í bókhaldi Baugs í tengslum við viðskipti með bréf Arcadia. Þær yfirheyrslur standa enn yfir og ekki er ljóst hvort þeim lýkur fyrir hádegi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×