Innlent

Margrét í leyfi fram yfir landsþing

Margrét Sverrisdóttir og Ólafur F. Magnússon fyrir fundinn í kvöld.
Margrét Sverrisdóttir og Ólafur F. Magnússon fyrir fundinn í kvöld. MYND/Stöð 2

Margrét K. Sverrisdóttir tekur sér leyfi á fullum launum frá starfi framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins fram yfir landsþing flokksins sem haldið verður í janúar. Hún segist sátt við niðurstöðuna af miðstjórnarfundi flokksins í kvöld, þar sem ákveðið var að kveða niður ágreining innan Frjálslynda flokksins.

Margrét mun þó áfram gegna ýmsum störfum fyrir flokkinn, svo sem að sjá um fjármál flokksins og skipuleggja landsþing. Aðspurð hvort hún muni í raun sinna áfram öllum þeim störfum sem hún hafi verið að sinna sem framkvæmdastjóri án þess að megi titla hana slíka, sagðist hún vissulega sinna nokkru af sömu störfunum en ekki í sama mæli. Hún sagðist ekki vilja heita að eiga vera í leyfi ef hún væri svo í fullri vinnu.

 

Hún vildi sem fyrr ekki tilkynna neitt um fyrirætlanir sínar á landsþinginu í janúar, en margir telja að hún hyggist bjóða sig fram til annað hvort varaformanns- eða jafnvel formannsembættis flokksins. Hún sagðist myndu taka við framkvæmdastjórastöðunni á ný eftir landsþing, það eina sem gæti komið í veg fyrir það væri ef hún næði kjöri í annað hvort varaformanns- eða formannsembættið.

Hún hefur hins vegar gefið það út að hún vilji leiða lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Uppstillingarnefnd mun, að öllu óbreyttu, skila niðurstöðu sinni fyrir landsþing.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×