Innlent

Telur að fylgi Framsóknarflokksins muni dala

Fylgi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi mun dala í kjölfar niðurstöðu prófkjörsins, segir Kristinn H. Gunnarsson sem féll niður í þriðja sætið í prófkjörinu í gær. Hann fellur út af þingi miðað við fylgi Framsóknar í kjördæminu í síðustu kosningum.  Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra sigraði og hlaut fyrsta sætið en Herdís Sæmundsdóttir fékk annað sætið.

Magnús fékk 883 atkvæði í fyrsta sætið. Herdís Sæmundsdóttir fékk 979 atkvæði í 1.-2. sætið en Kristinn hafnaði í því þriðja með 879 atkvæði í 1.-3. sætið. Framsóknarflokkurinn fékk tvo þingmenn kjörna í kjördæminu í síðustu Alþingiskosningum.

Kristinn hefur ekki ákveðið hvort hann þiggur sætið. Hann segir niðurstöðuna þá að Framsóknarmenn í kjördæminu vilji fylgja algjörlega þeirri stefnu sem forysta flokksins hefur fylgt á þessu kjörtímabili. Aðspurður um hvort hann hyggi á sérframboð segir hann ekki skynsamleg að taka þá ákvörðun nú.

Kristinn segir skipulega hafa verið unnið gegn sér innan flokksins síðastliðin tvö ár og augljóslega hafi verið unnið gegn honum í prófkjörinu. Þannig hafi margir þeirra sem kusu Magnús og Herdísi sniðgengið hann algjörlega. Kristinn telur að niðurstaða prófkjörsins komi til með að draga úr fylgi flokksins.

Magnús Stefánsson kannast ekki við að unnið hafi verið gegn Kristni. Magnús segir Kristin hafa farið gegn sér í prófkjörinu og hann því varist.

Herdís Sæmundardóttir vísar því á bug að hún hafi myndað blokk með Magnúsi gegn Kristni. Sjálf segist hún afar kát með sína niðurstöðu og stefni brött á þingsæti næsta vor.

Rúmlega tvöþúsund og fimm hundruð manns voru á kjörskrá og greiddu rúm 66% þeirra atkvæði í prófkjörinu sem fram fór með póstkosningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×