Innlent

Feðradeginum fagnað í fyrsta sinn á Íslandi

Í dag er feðradagurinn hér á landi en þetta er í fyrsta sinn sem hann er haldinn hátíðlegur á Íslandi. Því verður fagnað meðal annars með ráðstefnu á vegum félagsmálaráðuneytisins, Félags ábyrgra feðra og Jafnréttisstofu klukkan 14 í dag á Nordica-hótelinu.

Þar verður fjallað um feður í samfélagi nútímans og mikla þátttöku feðra á Íslandi í fæðingarorlofi. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra flytur ávarp á ráðstefnunni ásamt Tom Beardshaw frá Félagi ábyrgra feðra í Bretlandi. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, verður heiðursgestur ráðstefnunnar.

Feðradagurinn hefur nú verið skráður í Almanak Háskóla Íslands og verður hér eftir haldinn hátíðlegur annan sunnudag í nóvember ár hvert. Þess má geta að mæðradeginum hefur verið fagnað hér á landi síðan árið 1934 en hann ber jafnan upp á annan sunnudag í maí.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.