Innlent

Vilja sérkjörin burt sem fyrst

Engar efndir hafa orðið á því að eftirlaunalögum yrði breytt þó ár sé síðan forsætisráðherra lofaði að það yrði gert. Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, á þingi í dag og deildi á forsætisráðherra sem sagði málið ekki stranda á sér.

Við breytingar á lögum um eftirlaun stjórnmálamanna og embættismanna í árslok 2003 opnaðist fyrrum stjórnmálamönnum sú leið að þiggja eftirlaun samhliða fullu starfi á vegum ríkisins. Þegar þetta var leitt í ljós í byrjun síðasta árs lýsti forsætisráðherra vilja til að breyta þessu svo menn fengju ekki á sama tíma laun og eftirlaun.

"Hvað dvelur orminn langa?" spurði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, og kallaði eftir efndum. "Hvers vegna er ekki komin þessi lágmarksleiðrétting á eftirlaunafrumvarpinu sem forsætisráðherra var sjálfur, í eigin persónu, búinn að lýsa yfir að yrði lagfært?"

"Ég hef beitt mér fyrir því að það var samið frumvarpi um þetta mál og lagt það fyrir forsætisnefnd þingsins," sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. "Ég og minn flokkur erum tilbúnir að standa að slíku frumvarpi ef næst um það þverpólitísk samstaða. Sú samstaða hefur ekki náðst."

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri-grænna lýsti óánægju með lögin en sagði þá tillögu að breytingum sem talað væri um aðeins smink. "Það er bara ein leið, hvað lífeyrisfrumvarpið varðar. Það er að afnema þessi lög. Það er engin millileið til, bara burt með lífeyrisfrumvarpið, burt með þessi sérkjör.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×