Innlent

Óttast ekki andstöðu við frumvarpið

Frumvarp iðnaðarráðherra var rætt í upphafi fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Frumvarp iðnaðarráðherra var rætt í upphafi fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segist bjartsýn á að frumvarp hennar um stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar verði að lögum núna í vor. Þetta segir hún þrátt fyrir að allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd Alþingis geri athugasemdir við frumvarpið.

Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi iðnaðarráðherra í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag fyrir hvernig hún hefði lagt fram frumvarp sitt um stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar. Hann sagði að með því hefði ráðherra grafið undan því starfi sem hefði verið unnið í iðnaðarnefnd sem miðaði að því að ná þverpólitískri samstöðu um endurskoðun byggðamála. Nú hefði svo komið í ljós að frumvarpið mætti mikilli andstöðu Sjálfstæðismanna.

"Mér er ekki skemmt," sagði Jóhann. "Ég tel að byggðamálin séu alvörumál. Mér finnst að þegar iðnaðarráðherra sprengir allt í loft upp með því að koma fram með mál sem engin samstaða er um þá sé ekki vel af stað farið."

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra kannaðist ekki við að hafa valdið uppnámi í starfi iðnaðarnefndar og kvaðst hafa þær upplýsingar það starfið þar gengi vel. Hún óttaðist heldur ekki afdrif frumvarps síns sem væri mikið framfaramál. "Og þar að auki er það í fyrsta lagi alveg í samræmi við stjórnarsáttmála sem kom fram hjá ríkisstjórn Davíðs Oddsonar," sagði Valgerður, "og þar að auki hafði náðst samstaða um þetta mál á milli stjórnarflokkanna í ríkisstjórn. Og ég er bjartsýn á að það verði að lögum nú á vordögum."

Þrátt fyrir þessi orð iðnaðarráðherra eru Sjálfstæðismenn ekki jafn vissir um að frumvarpið verði að lögum. "Ég fæ ekki séð hvernig það getur orðið," segir Sigurður Kári Kristjánsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í nefndinni. "Það þarf að afgreiða málið út úr iðnaðarnefnd ef það á að gera það að lögum. Eins og þetta mál er fram sett er ekki stuðningur við það, sýnist mér, í nefndinni."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×