Innlent

Hrossakastínu sem liggur á

Fimmtán ára hrossakastanía blómstraði úti í garði í Hveragerði á dögunum. En hvað er svona merkilegt við það? Það lætur ekki mikið yfir sér, fimmtán ára gamalt og rúmlega fjögurra metra hátt hrossakastaníutré sem stendur í garðinum fyrir utan Þelamörk 54 í Hveragerði. Hrossakastanía blómstrar yfirleitt ekki á Íslandi, sú síðasta sem það gerði var víst reykvísk miðborgarkastanía á fimmtugsaldri. Og það er vel fylgst með þessu tré af garðyrkjufólki um allt land segir eigandinn, Lars Nielsen, enda sjaldgæfar innfluttar plöntur sem þessar stórt áhugamál margra.  Lars rekur garðplöntusöluna Borg með konu sinni Ragnheiði Guðmundsdóttur og hann segir þau hafa selt á milli fjögur og fimm hundruð hrossakastaníur á síðustu fimmtán árum. Þau eru í góðu sambandi við kaupendurna sem tilkynna þeim um vöxt og viðgang trjánna á hverju ári. Rætt er við hvern kaupanda, næstum eins og hundaræktendur sem vilja vera vissir um að hvolparnir þeirra rati á góð heimili. Lars telur hlýrri sumur hafa mest að segja um að tréð blómstri núna, það muni um hvert brot úr gráðu fyrir plönturnar. Aðspurður hvort ekki þurfi ægilega þolinmæði í þessum bransa, að planta tré og bíða svo í áratugi eftir því að það blómstri - kannski - segir Lars það svo sannarlega vera nauðsynlegt. En ekki saki að spjalla aðeins við plönturnar líka. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×