Sport

Íris Edda á sínum öðrum ÓL

"Mér líður mjög vel hérna í lauginni enda finnst mér hún frábær. Hún er hröð og góð og hentar mér vel. Það gengur líka mjög vel hjá mér þannig að það er yfir litlu að kvarta nema kannski hitanum. Það er það eina sem þurfti að venjast en það er alveg komið," sagði hinn tvítugi Keflvíkingur Íris Edda Heimisdóttir sem æfir með Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar. Íris Edda er að keppa á sínum öðrum Ólympíuleikum og hún segir það skipta máli að hafa reynslu af slíku móti. Hún þurfti að hafa mikið fyrir því að komast á leikana og eftir að hún komst inn hvarf stressið hjá henni. "Það er ekkert stress hjá mér núna. Það er alveg horfið. Ég var stressuð yfir því að komast ekki á leikana enda var ég í harðri baráttu við aðra stelpu um að komast hingað. Það var bara þrem vikum fyrir leikana sem ég fékk að vita að ég hafi komist inn og þá hvarf stressið. Nú er bara að hafa gaman af þessu. Það þýðir ekkert annað." ÓL-lágmarkinu náði Íris Edda á HM í fyrra en þrátt fyrir það var hún ekki örugg inn á leikana fyrr en seint í sumar. "Þetta er búið að taka á taugarnar í sumar. Ég fór síðast á mót í júlí og það var algjört baráttumót. Þá var ég að keppa í Króatíu en hin stelpan helgina á eftir mér.Þannig að ég varð að bíða í heila viku eftir því að vita hvort ég kæmist inn og það var erfitt." Líkt og Jakob Jóhann keppir Íris Edda í 100 metra bringusundi og hún hefur sett stefnuna á að nálgast enn frekar Íslandsmet Ragnheiðar Runólfsdóttur í Aþenu. "Eins og hjá fleirum þá verður örugglega smá stress rétt áður en ég keppi. Það er fullt af fólki og þetta eru Ólympíuleikar. Það þýðir samt ekkert að velta sér of mikið upp úr því. Maður verður bara að vera jákvæður og hafa gaman af því sem maður er að gera. Ég er í topp líkamlegu og andlegu formi og undirbúningur hefur gengið mjög vel. Ég hef aðeins þurft að glíma við andlegu hliðina, en það hefur verið mín veika hlið, en það er allt að koma og vonandi smellur þetta hjá mér, " sagði Íris Edda sem á best 1:13,28 mínútur en hún stefnir á að komast undir 1:13 í Aþenu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.