Sport

Kolbrún Ýr hóf keppni

Skagastúlkan Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir var fyrsti Íslendingurinn sem tók þátt á Ólympíuleikunum í Aþenu er hún stakk sér til sunds í 100 metra flugsundi. Sundið gekk ágætlega hjá Kolbrúnu og hún var ekki fjarri því að slá Íslandsmet sitt er hún kom í mark á 1:02,33 mínútum. Engu að síður náði hún sínum næstbesta tíma í greininni. Kolbrún var kát og brosmild er blaðamaður Fréttablaðsins hitti hana rétt eftir sundið. "Mér líður bara vel og mér leið vel í sundinu. Ég var ekkert voðalega stressuð heldur tók þetta bara eins og hvert annað mót. Þetta er minn næstbesti tími í greininni þannig að ég er sátt," sagði Kolbrún og brosti sínu. "Ég ætlaði mér að slá Íslandsmetið en ég var ekkert mjög langt frá því. Síðustu metrarnir klikkuðu aðeins en annars var þetta bara mjög fínt." Kolbrúnu leiðist ekki lífið í Aþenu en hún segir að þessar aðstæður eigi ákaflega vel við hana. "Mér finnst alveg æðislegt að synda hérna. Ég þrífst á þessu að hafa fullt af fólki og heyra í Íslendingunum hvetja mann. Þetta er alveg magnað," sagði Kolbrún sem var að synda á sínum öðrum leikum og hún er staðráðin í að synda á fleiri Ólympíuleikum. "Ég á að minnsta kosti eina leika eftir. Það er í það minnsta stefnan í dag en svo veit maður aldrei hvað gerist. Það er svo mikil upplifun að vera á svona leikum og þetta vil ég upplifa aftur."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.