Innlent

Lögin voru hefndarleiðangur

Stjórnarandstaðan gagnrýnir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar harðlega og segir greinilegt að hún hafi viðurkennt uppgjöf í fjölmiðlamálinu. Efast er um að heimilt sé að hætta við þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem skýrt sé kveðið á um hana í stjórnarskrá. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa barist fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um fjölmiðlalögin og hafa talið það ótvírætt ákvæði 26. greinar stjórnarskrárinnar. Þeir telja að ríkisstjórnin hafi gefist upp í málnu, en að umdeilt sé einnig hvort henni sé heimilt að hætta við þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Steingrimur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna sagði í viðtali í þættinu Íslandi í bítið í morgun að þetta væri fullkomin uppgjöf hjá stjórninni. Þetta hefði verið barningur hjá þeim í marga mánuði sem væri orðinn að engu. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar, sagði þetta mikinn sigur fyrir þá sem barist hafa gegn fjölmiðlalögunum. Í þessum gjörningi ríkisstjórnarinnar felist ótvíræð yfirlýsing um að forseti Íslands hafi haft rétt fyrir sér þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Össur segir að þetta sýni að málskotsréttur forsetans sé gífurlega mikilvægur fyrir lýðræðið í landinu og eina vörnin gegn ráðherraræði. Um ummæli Davíðs Oddssonar, að stjórnarandstaðan hafii ekki haft neitt fram að færa, segir Össur að forsætisráðherra tali tóma vitleysu. Samfylkingin vilji setja upp ákveðinn lagaramma í kringum fjölmiðla og hafi sett það fram í fjórum liðum. Össur segir að fjölmiðlalögin hafi verið hefndarleiðangur gagnvart einu fyrirtæki. Nú ætli Davíð að leggja upp í annan hefndarleiðangur gegn forsetanum og málskotsréttinum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×