Innlent

Meðferð málsins skrípaleikur

Stjórnarandstaðan í Allsherjarnefnd Alþingis segir meðferð fjölmiðlamálsins skrípaleik. Fundur nefndarinnar hófst klukkan fimm í dag, en var frestað í morgun. Meirihluti nefndarinnar kynnti ekki niðurstöðu stjórnarformannanna en sagði að hún yrði kynnt á fundi nefndarinnar á morgun. Stjórnarandstaðan fór hörðum orðum um meðferð málsins í nefndinni fyrir fundinn sem hófst rúmlega fimm. Áður en nefndin kom saman hittist meirihlutinn og ræddi niðurstöðu formanna stjórnarflokkanna. Henni var hinsvegar haldið leyndri fyrir öðrum fundarmönnum. Á fundinum var hinsvegar fellt að afgreiða frumvarp stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu úr nefndinni svo það gæti farið til umræðu í þinginu. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna segir að stjórnarherrarnir vilji halda spilunum hjá sér og að vinnan í nefndinni hafi verið skrípaleikur síðan um miðja síðustu viku. Málið fari nýjan hring. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar vildi ekki spá fyrir um niðurstöðu þar sem þetta væri í fimmta skipti sem stjórnarflokkarnir hefðu komist að samkomulagi. Hann efaðist þó um að lögin yrðu samþykkt.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×