Innlent

Gríðarlegur fjöldi mótmælti

Gríðarlegur fjöldi manna, eða a.m.k. þúsund manns að því er talið er, tók þátt í útifundi sem Þjóðarhreyfingin - svokallaður viðbragðshópur sérfræðinga, boðaði til við Alþingishúsið klukkan 12:30 í dag. Mannfjöldinn hrópaði „Við viljum kjósa!“, en fundurinn mótmælti harðlega þeirra fyrirætlan að Alþingi nemi úr gildi þau lög sem fyrir atbeina forseta Íslands hafði verið skotið í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Í áskorun fundarins er því ennfremur mótmælt að Alþingi lögleiði jafnharðan nær óbreytt öll efnisatriði hinna fyrri laga, í því skyni einu að koma í veg fyrir að þjóðin kveði upp sinn dóm um lögin. Mannfjöldinn streymdi síðan til stjórnarráðsins með forsvarsmenn Þjóðarhreyfingarinnar, þá Ólaf Hannibalsson, Hans Kristján Árnason og séra Örn Bárð Jónsson, fremsta í flokki. Þar stóð til að afhenda Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, áskorunina en þar sem hann er enn staddur í Bandaríkjunum tók öryggisvörður stjórnarráðsins á móti skilaboðunum. Meðfylgjandi mynd er frá mótmælum við Stjórnarráðið í hádeginu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×